Listir og skipulag

Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi
Um daginn átti eg skemmtilegt spjall við nokkra félaga sem öll hafa áhuga á borgarskipulagi. Listamaðurinn í hópnum var að sýna okkur útlistaverk sem hafði í einfaldleika sínum ótrúega jákvæð áhrif á allt umhverfið í kringum sig. Og við vildum öll sjá meira af slíku bæði listum og mannvænni hönnun í hverfunum okkar. Við vorum algjörlega sammála um að slíkt gæti bætt svo miklu við og gert staði svo miklu meira spennandi  og aðlaðandi. Af hverju eru listirnar ekki stærri þáttur í borgarskipulaginu?
Styttur á stalli
Hægt var að greina í hópnum ákveðna þreytu á því að listin kæmi síðust inn. Styttu komið fyrir á stalli í almenningsgarði.  Svona eins og kökuskraut á rúgbrauði. Arkitektúr er listform sem setur svip sinn á hús og hverfi en einhvern veginn virðist sem lítið fari fyrir því að horft sé til möguleika annars konar listforms í upphafi skipulags. Sjá mætti fyrir sér að hægt væri að gera mögnuð verkefni ef við breyttum aðeins um vinnulag. Til dæmis með því að hafa listamenn með í ráðum á vel völdum stöðum  þegar byggja á hús, skipuleggja græn svæði, setja  upp nýjar götur, gatnamót, hringtorg, meira að segja mislæg gatnamót gætu orðið skemmtileg fyrirbæri.
Stefnan er til staðar
Menningarstefna Reykjavíkurborgar hefur síðan 2009 kveðið á um aðkomu listamanna að skipulagi og mannvirkjum en lítinn árangur er að greina. í dag var samþykkt endurskoðuð menningarstefna í borgarstjórn og nú verður enn fastar að orði kveðið um aðkomu listamanna að skipulagi ef eftirfarandi klausa sem tekin er úr drögum af menningarstefnu sem nú liggur fyrir menningar- og ferðamálaráði:
 „Mikilvægt er að ásýnd og ímynd Reykjavíkur endurspegli skapandi hugsun íbúa hennar og að mannlíf og mannvænt umhverfi sé haft í fyrirrúmi. Líta þarf á aðkomu listamanna að mótun opinberra bygginga og almannarýmis sem órjúfanlegan hluta af heildinni. Listaverk glæða opinber svæði lífi, veita þeim sérstöðu og bæta staðaranda, hvort sem um er að ræða stök verk eða verk sem mynda hluta af stærra samhengi, s.s. samgönguverkefnum, vegaframkvæmdum og við hönnun opinna svæða. „
Látum þetta gerast
Við sjálfstæðismenn í Reykjavík teljum að hægt sé að gera betur en verið hefur. Stefnunni fylgja aðgerðir sem nú í framhaldinu  er mikilvægt að forgangsraða svo við förum að ná markvissari árangri. Hér má sjá fyrir sér að hægt yrði að byrja með því að skilgreina ákveðna reiti sem til dæmis eru meira „almennings“ en aðrir og ástæða til að gera skipulagið aðlaðandi og gott og gera tilraun með að koma listunum fyrr inn í ferlið. Margt annað má láta sér detta í hug sem gæti gert okkar góðu borg enn betri. Alla vega er tími til kominn að láta þetta gerast.