Verða að upplýsa um niðurstöður PISA

Ráðhús Reykjavíkur

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kvað upp dóm þann 24. júní sl. þar sem nefndin skipar Reykjavíkurborg að aflétta leynd af PISA-könnuninni sem borgin ákvað á síðasta kjörtímabili að birta ekki almenningi. Á þetta bæði við um niðurstöður könnuninnar og gögn sem starfsmenn borgarinnar hafa unnið með.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu í borgarstjórn í þann 18. mars 2014 sl. þar sem að við kröfðumst þess að árangur hvers skóla fyrir sig í einstökum greinum PISA-könnunar yrðu sendar skólastjórnendum, skólaráði og stjórn foreldrafélags í því skyni að hvetja til upplýstrar umræðu um kennsluhætti og námsárangur.
Tillögunni var vísað frá með 10 atkvæðum Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Nánar má lesa um úrskurðinn hér.

Bókanir úr borgarstjórnar þann 18. mars 2014

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar Bjartrar framtíðar/Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna skuli vísa frá tillögu um að árangur hvers skóla í einstökum greinum PISA-könnunar 2012, lesskilningi, náttúrufræðilæsi og stærðfræðilæsi, verði sendar viðkomandi skólastjórnendum, skólaráði og stjórn foreldrafélags. Markmið tillögunnar er að tryggja að foreldrar fái tiltækar upplýsingar um árangur skóla barna þeirra og hvetja til upplýstrar umræðu um kennsluhætti og námsárangur. Markmið tillögunnar er hins vegar ekki að etja skólum saman og benda í ásökunarstíl á þann skóla sem skilar lökustum árangri eins og borgarfulltrúar meirihlutans hafa haldið fram. Rétt er að benda á að niðurstöður einstakra skóla í samræmdum prófum hafa verið birtar frá aldamótum og viðurkenna nú flestir að birting slíkra upplýsinga sé til góðs og veiti foreldrum mikilvægar upplýsingar um skóla barna þeirra sem og skólakerfið í heild. Niðurstaða málsins er skýr: Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja að foreldrar grunnskólabarna fái upplýsingar um útkomu grunnskóla þeirra í PISA-könnuninni. Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar/Besta flokksins og Vinstri grænna vilja ekki veita foreldrum þessar upplýsingar.

Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillögunni er vísað frá vegna þess að þetta verklag er þegar í gildi. Stjórnendur og skólaráð fá upplýsingar um stöðu skóla. Í skólaráðum sitja foreldrar kosnir samkvæmt starfsreglum foreldrafélags hvers skóla. Skólaráðum er best treystandi til að virkja skólasamfélagið til samráðs og samtals um hagsmuni skólans og velferð nemenda. Miðstýring borgarstjórnar á því hvernig það fer fram er ekki til bóta. Allt tal um að borgarfulltrúar vilji ekki veita foreldrum upplýsingar um stöðu grunnskólanna er misskilningur eða útúrsnúningur og lykta sjónarmið Sjálfstæðisflokksins mjög af vantrausti til stjórnenda og skólaráða

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það eru rangfærslur sem fram koma í bókun meirihlutans að umrætt verklag sé nú þegar í gildi. Rétt er að skólastjórnendur fá slíkar upplýsingar en með því að þeir leggi þær fram í skólaráði þar sem tveir fulltrúar foreldra sitja, er ekki tryggt að allir foreldrar í viðkomandi skóla sem óska eftir slíkum upplýsingum fái þær. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja tryggja að allir foreldrar fái sem víðtækastar upplýsingar um stöðu skóla barna sinna, hvort sem þeir sitja í skólaráði eða ekki.