Vilja betra samstarf við stórar hátíðir

secret-solstice

Á borgarráðsfundi í morgun lögðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu sem hefur það að markmiði að Reykjavíkurborg taki að sér að skipuleggja viðbragðs- og samskiptateymi sem auðveldi samskipti milli einka- og opinberra aðila þegar stórar hátíðir eru haldnar í Reykjavík á opnum svæðum.

10 þúsund manns sóttu hina vel heppnuðu tónlistarhátíð Secret Solstice um síðustu helgi. Borgin kom ekki að þeirri hátíð með öðrum hætti en að gefa leyfi til þess að halda mætti hátíðina í borgarlandi. Önnur leyfi og samskipti þurftu hátíðarhaldarar að sjá um sjálfir. Vitað er að betur hefði mátt skipuleggja samskipti milli aðila hvað hátíðina varðar. Til dæmis gætti misskilnings um sölutíma áfengis og lokaði lögreglan fyrir söluna án þess að taka mark á rökum seljenda. Leyfin voru hins vegar ekki útgefin fyrr en eftir að hátíðin byrjaði og höfðu aðilar því lítið rými til að gera athugasemdir enda almennur opnunartími opinberra stofnana liðinn. Það eru hagsmunir borgarbúa að hátíðir sem þessar séu haldnar, fari fram snuðrulaust. Ekki á að skipta neinu máli hver heldur hátíðina en ástæða er til að auðvelda öll samskipti milli aðila hvort sem um er að ræða einkaaðila eða opinbera. Reykjavíkurborg býr að góðri þekkingu og reynslu af hátíðarhaldi. Því er lagt til Reykjavíkurborg stofni viðbragðs og samskiptateymi og bjóði fram krafta sína til að gera samskipti milli aðila einfaldari og betri. Sjálfsagt er að veita einkaaðilum slíka þjónustu þrátt fyrir að borgin haldi ekki hátíðina sjálf. Með þessu er einnig stuðlað að enn meiri menningaránægju og einkaaðilar hvattir til enn meira menningarstarfs.

Áslaug María Friðriksdóttir og Hildur Sverrisdóttir sátu borgarráðsfund í fyrsta sinn saman fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og tók Áslaug María mynd (sjá niður) á Instagram með þessum skilaboðum: „Við stöllur sátum borgarráðsfund í morgun. Lögðum ýmislegt til málanna, meðal annars að sett yrði saman viðbragðsteymi til að auðvelda þeim sem standa að útihátíðum í Reykjavík að eiga flækjuminni samskipti við opinbera aðila. Áfram menningin í Reykjavík!“