Velferðarkerfi borgarinnar á tímamótum

Áslaug og Börkur

Áslaug María Friðriksdóttir og Börkur Gunnarsson, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði telja velferðarþjónustuna í Reykjavíkurborg standa á tímamótum. Þetta kom fram á fundi velferðarráðs í gær þar sem forsendur fjárhagsáætlunar ráðsins voru lagðar fram til kynningar.

Þegar horft er nokkur ár fram í tímann er ljóst að mæta þarf þjónustuþörf stærri hlutfalls íbúa sökum öldrunar og að skort hefur á þjónustu við fatlaða sem og að þjónustan er ekki veitt með nógu sveigjanlegum og persónulegum hætti. Mjög mikla áherslu þarf að leggja á hvernig þjónustukerfið í Reykjavík þarf að breytast til að vera í stakk búið til að mæta þessu aukna álagi. Að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins ætti meginverkefni [velferðar]sviðsins á næsta ári að vera að vinna áætlun um hvernig mæta þarf þessum óumflýjanlegu stóru breytingum.

Ein af leiðunum er að horfa til velferðartækni.  Nauðsynlegt er að innleiða skýra áætlun um hvernig hægt er nýta tækifæri sem felast í rafrænum og tæknilegum lausnum. Dæmi eru um að í stað næturvaktar sé hægt að nota hreyfiskynjara til að veita nauðsynlegt eftirlit án þess að inn á heimilum þurf að vera með fasta viðveru. Slíkt er líka í takt við óskir notenda. Mörg dæmi eru um að rafræn samskipti geti vel komið í stað raunheimsókna og geti veitt mikinn stuðning með mun minni tilkostnaði. Þannig er einnig hægt að veita fleira fólki þjónustu. Ljóst er að þarna liggja gríðarleg tækifæri. Í áherslunum kemur fram að á dagskrá sé stöðug umbóta- og gæðavinna til að auka hagkvæmni, skilvirkni og fagleg vinnubrögð en því miður er framsetningin hér ekki nægilega sannfærandi. Taka þarf verkefnið mun alvarlegar því hætta er á því að velferðarþjónustan í Reykjavík bíði annars skipsbrot.