Endurskoða ekki aðalskipulagið

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030

Meirihlutinn í borginni ákvað á borgarráðsfundi í gær að endurskoða ekki aðalskipulag Reykjavíkur fyrir árin 2010-2030. Halldór Halldórsson og Júlíus Vífill Ingvarsson, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði töldu það nauðsynlegt að taka þyrfti upp aðalskipulagið á ný til þess að meiri heildarsátt milli borgarbúa næðist um aðalskipulagið.

Halldór og Júlíus Vífill gerðu þá tillögu að stofnaður yrði faglegur vinnuhópur sem hefði það að markmiði að rýna betur þau svæði og það skipulag sem sætt hefur hvað mestri gagnrýni síðan aðalskipulagið var samþykkt. Vinnuhópurinn skili niðurstöðum sínum áður en umhverfis- og skipulagsráð tekur ákvörðun um hvort aðalskipulagið verði endurskoðað í upphafi nýs kjörtímabils eins og kveðið er á um í 35. grein skipulagslaga.
Tillagan var felld af meirihlutanum.
Hildur Sverrisdóttir og Herdís Anna Þorvaldsdóttir lögðu fram tillöguna fyrst í umhverfis- og skipulagsráði 25. júní sl. þar sem hún var einnig felld.

Lýstu þeir vonbrigðum sínum yfir að meirihlutinn hafi fellt tillögu þeirra um að skoða þætti ákveðin atriði í aðalskipulagi Reykjavíkur. Vinnuhópurinn hefði m.a. fengið það verkefni að rýna í eftirfarandi hluti í aðalskipulaginu:

  • Byggingarsvæði við gömlu höfnina (Vesturbugt) til að gæta þess að þrengja ekki að atvinnulífinu við höfnina.
  • Flugvöllur er höfuðborginni nauðsyn og þess vegna þarf að endurskoða aðalskipulagið m.t.t. þess að flugvellinum er ekki ætlað að vera lengur en út árið 2014 með NA-SV braut og 2022 til 2024 með þær tvær brautir sem þá yrðu eftir.
  • Skýra betur tengingu aðalskipulags og hverfisskipulags til að koma í veg fyrir misskilning og að hugmyndir um breytingar í grónum hverfum verði unnar í nánu samstarfi við íbúa.
  • Afmarka þarf Laugardalinn í eitt skipti fyrir öll þannig að byggingaráform í eða við dalinn gangi ekki á þá útivistarperlu sem dalurinn er. Vernda þarf Laugardalinn og kveða skýrt á um það í endurskoðuðu aðalskipulagi.
  • Afmarka þarf Elliðaárdalinn og Víðidalinn og vernda sem náttúruperlur í borginni.
  • Markmið um fjölda íbúða í Úlfarsárdal verði endurskoðuð og við það miðað að hverfið verði sjálfbært í samræmi við upphaflega stefnumörkun um hverfið.
  • Hugmyndir um brú yfir Fossvoginn verði teknar til endurskoðunar og gætt að hagsmunum vaxandi siglingastarfsemi í Fossvoginum.
  • Endurskoða þarf rými fyrir atvinnusvæði í aðalskipulagi og gera atvinnulífinu hærra undir höfði. Huga þarf betur að framtíðarþörfum flutningahafnar í Sundahöfn og möguleikum til stækkunar á skipulagstímabilinu.
  • Endurskoða þarf umferðarmálin með aukinni áherslu á flæði umferðar, aukið umferðaröryggi og minni mengun.