Erfitt að koma sér upp sínu eigin húsnæði

Krani

Á fundi borgarstjórnar 20. maí sl. lögðum við fram tillögu að því að skipuð yrði nefnd sérfræðinga í neytendalánum sem geri tillögur til ráðsins að því hvernig laga má lánastarfsemi borgarinnar vegna sölu byggingarréttar að nýju lagaumhverfi.

Á sama fundi lögðum við einnig fram tillögu sem sneri að því að auðvelda einstaklingum og fyrirtækjum að hefja uppbyggingu í Reykjavík og lögðum til að reglur um sölu byggingarréttar yrðu rýmkaðar.

Báðar tillögurnar voru felldar á fundi borgarráðs sl. fimmtudag.

Halldór Halldórsson og Júlíus Vífill Ingvarsson, sátu í borgarráði á fimmtudaginn og töldu meirihluta borgarstjórnar leggja stein í götu þeirra sem vilja koma sér upp sínu eigin húsnæði. Með því að afnema lánakjör borgarinnar á sölu byggingarréttar sem hefur staðið einstaklingum til boða í áratugi var stigið skref í þá átt að gera húsbyggjendum erfiðara fyrir. Meirihlutinn virðist telja að lög um neytendalán hafi verið sett í þeim öfugsnúna tilgangi að koma í veg fyrir að almenningur geti tekið lán. Það er misskilningur.
Tilgangur laganna er ekki að torvelda lántökur heldur að veita lántakendum ákveðna neytendavernd sem felst m.a. í aukinni upplýsingagjöf. Með setningu laga um neytendalán á árinu 2013 var ekki hvað síst verið að bregðast við og vernda ungt fólk fyrir smálánafyrirtækjum en uppgangur slíkra fyrirtækja hefur verið mikill hér á landi frá árinu 2010 sem og annars staðar í Evrópu og hefur sú þróun verið áhyggjuefni. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu bjóða lán til einstaklinga og fyrirtækja vegna sölu byggingarréttar og hafa ekki í hyggju að breyta því. Kjörin eru þau sömu og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að í boði verði hér í Reykjavík. Stærsta sveitarfélag landsins hefur hafnað því að veita lánafyrirgreiðslu með sama hætti og minni sveitarfélög gera og sem einkafyrirtæki á neytendamarkaði bjóða almenningi. Hagkvæmara er fyrir ungt fólk að búa í eigin húsnæði heldur en leigja. Áherslur Reykjavíkurborgar eiga að vera að liðka fyrir og auðvelda ungu fólki að festa kaup á fasteign. Með því að bjóða fyrirtækjum áframhaldandi lánafyrirgreiðslu vegna sölu byggingarréttar en afnema þá þjónustu til einstaklinga er verið að draga úr möguleikum einstaklinga og fjölskyldum þeirra til að eignast eigið húsnæði.


Tillögurnar í heild sinni:

1. Skipuð verði nefnd sérfræðinga í neytendalánum sem geri tillögur til ráðsins að því hvernig laga má lánastarfsemi borgarinnar vegna sölu byggingarréttar að nýju lagaumhverfi. Nefndin geri einnig tillögur til borgarráðs að því hvernig lán borgarinnar til húsbyggjenda verði sem best útfærð.

2. Í þeim tilgangi að auðvelda einstaklingum og fyrirtækjum að hefja uppbyggingu í Reykjavík er lagt til að reglur um sölu byggingarréttar verði rýmkaðar. Einstaklingum verði aftur boðið að fá 90% af kaupverði byggingarréttar að láni til 8 ára eins og verið hefur. Fyrri ákvörðun um að fella niður lán til einstaklinga verði felld úr gildi. 7% staðgreiðsluafsláttur verði tekinn upp að nýju. Boðinn verði afsláttur til þeirra sem kjósa að byggja minna en byggingaheimildir leyfa þannig að kaupverð byggingarréttar lækki til samræmis við minna byggingarmagn og geti þannig lækkað um allt að 30%. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breyttar reglur um sölu byggingarréttar fyrir fjölbýlishús verði hluti af nýjum og rýmri reglum um sölu byggingarréttar.

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi

Mynd af reykjavik.is