Ósammála um fjárhagsaðstoð

Fjarhagsadstod2014

Á fundi velferðarráðs þann 26. júní sl. var rætt um skýrslu Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Í skýrslunni er fjallað um gildi þess að skilyrða fjárhagsaðstoð við til dæmis það að mæta og taka þátt í verkefnum og annað slíkt. Niðurstaða skýrslunnar er á þessa leið: „Samdóma niðurstaða þeirra heimilda sem skoðaðar voru er að skilyrðingar hafa ótvíræð áhrif við að hvetja þá einstaklinga sem fá fjárhagsaðstoð og á annað borð geta unnið til að leita sér að launavinnu. Sérstaklega er þetta talið mikilvægt þegar um ungt fólk er að ræða“.

Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi, og Börkur Gunnarsson, varaborgarfulltrúi, sitja í velferðarráði en sjálfstæðismenn hafa síðustu ár bent ítrekað á nauðsyn þess að beita skilyrðingum til að hvetja fólk til að taka þátt í virkniverkefnum og til að styrkja það til að sækja út á vinnumarkaðinn. Mikilvægasta markmiðið er að hvetja fólk til sjálfsbjargar og hvetja það til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Mjög alvarlegt ástand er í Reykjavík hvað fjárhagsaðstoðina varðar en mikill fjöldi þarf á henni að halda. 70% þeirra er fólk yngra en 40 ára og stærsti hópurinn er ungt fólk á aldrinum 18-25 ára. Því er mikilvægt að nýta allar þær leiðir sem geta leitt til þess að losa fólk úr vítahring fátæktar. Reykvíkingar verja miklu mun meira af skatttekjum sínum í fjárhagsaðstoð en íbúar í öðrum sveitarfélögum. Á meðan fjölgar starfandi fólki í Reykjavík ekki eins hratt og annars staðar á landinu. Afleiðingarnar eru því gríðarleg uppsöfnun velferðarvanda. Mjög mikilvægt er að taka upp allar þær aðferðir sem sýnt er að hafi áhrif á virkni til velferðar en ljóst er að skilyrðingar skipta máli.

Fulltrúar meirihluta velferðarráðs ítreka það að áhersla verði lögð á einstaklingsbundinn stuðning til sjálfshjálpar og virkni. Þeim sem þarfnast fjárhagslegrar aðstoðar verði boðin tækifæri til vinnu, náms, starfsendurhæfingar eða meðferðar. Vinnufærum einstaklingum verði fundin störf í samvinnu við atvinnulífið eftir því sem kostur er. Sérstaka áherslu þarf að leggja á virkni og forvarnir meðal ungs fólks. Reglur og fyrirkomulag fjárhagsaðstoðar þarf að endurskoða reglulega með það í huga að að stuðningurinn komi til móts við þarfir og efli og hvetji þá sem hann nota. Efla þarf notendasamráð og rannsaka hópinn betur þannig að hægt sé að bregðast við með viðeigandi aðstoð og úrræðum. Fjölmörg góð verkefni eru í gangi til að virkja notendur fjárhagsaðstoðar á borð við Grettistak, Kvennasmiðju, Stíg og Atvinnutorg en mikilvægt er að efla og styrkja notendur fjárhagsaðstoðar á einstaklingsgrundvelli.

Nýr meirihluti tekur ekki undir niðurstöður skýrslu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á fyrra kjörtímabili voru fulltrúar meirihlutans og Sjálfstæðisflokkur á sama máli um mikilvægi þess að nýta skilyrðingarnar þar sem við á. Nú er ljóst að Samfylking og Björt framtíð hafi skipt um skoðun. Slík U-beygja hjá þeim flokkum er engan veginn í takt við hagsmuni borgarbúa allra.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um skýrsluna hér á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga 

Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi

Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi

Börkur Gunnarsson, varaborgarfulltrúi

Börkur Gunnarsson, varaborgarfulltrúi