Enn einn starfshópurinn

krakkar_skoli

Á fundi skóla- og frístundarráðs á miðvikudaginn sl. var samþykkt tillaga frá fulltrúum Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata um að setja á fót fagráð um eflingu lestrarfærni og lesskilnings meðal barna og ungmenna í skólum Reykjavíkurborgar. Hlutverk ráðsins verði að móta tillögur um hvernig megi efla lestrarfærni og lesskilning meðal reykvískra grunnskólanemenda, sem og málþroska, hljóðkerfisvitund og læsi barna í leikskólum borgarinnar.

Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir, sem sátu á fundinum sögðu það vera eitt helsta áhersluatriði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að gripið verði til aðgerða í því skyni að bæta kennslu í lestri og efla lesskilning í reykvískum skólum. Er sú staða með öllu óviðunandi að 30% drengja og 12% stúlkna geti ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla. Á síðasta kjörtímabili gagnrýndu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þáverandi meirihluta Samfylkingar og Bjartrar framtíðar/Besta flokksins harðlega fyrir áherslu á margvísleg gæluverkefni í stað áherslu á grunnfærni nemenda í lestri og stærðfræði og að þeir njóti þeirrar þjálfunar, sem nauðsynleg er fyrir árangur á seinni stigum. Hvorki er hörgull á gögnum, sem sýna að átaks er þörf í lestrarkennslu í Reykjavík né tillögum til úrbóta og kann því að orka tvímælis að skipa enn einn starfshópinn til að fara yfir málið.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu tillöguna í því trausti að vilji sé til þess hjá nýjum meirihluta að taka málefni lestrarkennslu í Reykjavík fastari tökum, en fráfarandi meirihluti gerði.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi


 
Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi

Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi

Mynd af frettatiminn.is