Er í lagi að spreða annarra manna pengingum eitthvað út í loftið?

KristinnKarl

Á fundi borgarráðs í þann 14. ágúst sl.  lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu er varðar styrkveitingar borgarráðs. Óskipulag ríkir innan borgarráðs og styrkveitingar í ráðinu lúta engum reglum. Styrkir ráðsins eru veittir án auglýsinga og án þess að kynnt sé fyrirfram hvað ráðið vilji styrkja né hvort umsækjendur þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði. Þeir Halldór Halldórsson og Júlíus Vífill Ingvarsson, fulltrúar flokksins  í borgarráði, vilja auka gegnsæi og tryggja jafnræði er kemur að styrkveitingum í borgarráði og leggja til að borgarráð móti sér stefnu um styrkveitingar ráðsins. Afgreiðslu tillögunnar  var frestað.

Tillaga sem þessi, felur ekkert annað í sér,  verði hún samþykkt, að borgarráð vilji að um styrkveitingar þess gildi ákveðnar reglur og að vilji sé til þess að setja slíkar reglur og fara eftir þeim.   Það er því ekki eins og að þurft hafi að fresta afgreiðslu þessarar  tillögu vegna tæknilegra ágalla eða skorts á upplýsingum.  Heldur hafi ekkert skort nema vilja til þess að setja þessum styrkveitingum  einhvern regluramma.  Hægt er, án þess að á nokkurn sé hallað, að halda því fram, að frestun tillögu af þessari gerð, sé ekkert annað en synjun á  henni.

Það þarf svosem ekkert að koma á óvart að „frjálslyndu sósíalistarnir“ í borgarstjórnarmeirihlutanum forðist það að um ráðstöfun þeirra á annarra manna peningum sem þeir ausa í allar áttir, eftir geðþótta og skapi hverju sinni, séu settar  einhverjar sérstakar reglur.

Það er vel hægt að sætta sig við það, að ýmis verkefni og viðburðir njóti styrkja frá borgarráði. Jafnvel þó hlutverk ráðsins sé fyrst og fremst það, að tryggja grunnþjónustunni nægt fjármagn til rekstrar.  En um styrkveitingar borgarráðs og aðrar fjárveitingar lögbundinna verkefna borgarinnar þurfa að gilda gagnsæjar einfaldar reglur.  Ef reglur um fjárveitingar skortir, þá skortir aðhald í rekstri borgarinnar.

Handahófkenndar og tilviljanakenndar styrkveitingar eru afar léleg stjórnsýsla.  Þegar fólk tekur það að sér, að útdeila skattfé almennings í allar áttir, er það algert lágmark að um slíkt gildi einhverjar reglur.  Það er skýlaus krafa borgarbúa, sem að kjörnum fulltrúum í borgarstjórn  ber að virða og taka tillit til.

Eða er bara allt í lagi að skattfé borgarbúa sé ráðstafað eitthvað út í loftið?

Kristinn Karl Brynjarsson er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í hverfisráði Hlíðarhverfis og greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25.08.2014.