Mætti ná betri árangri með Atvinnutorgi

Áslaug og Börkur

Áslaug María Friðriksdóttir og Börkur Gunnarsson, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði Reykjavíkurborgar, lögðu fram tillögu þess efnis að ástæða væri til að auka við þjónustu Atvinnutorgs Reykjavíkur en Atvinnutorg í Reykjavík er atvinnutengt úrræði fyrir unga atvinnuleitendur á aldrinum 16 – 30 ára, óhað rétti þeirra til atvinnuleysisbóta. Atvinnutorg sinnir sérstaklega því fólki sem er án bótaréttar en einnig þeim einstaklinglinum sem eru að missa bótarétt sinn hjá Vinnumálastofnun eða þurfa frekari einstaklingsmiðaðri stuðning við að koma sér út á vinnumarkaðinn.

Áslaug María telur að Atvinnutorg hafi reynst vel til þess að aðstoða fólk til að komast af fjárhagsaðstoð. Ein af meginstefnum velferðarsviðs er að fækka fólki sem þarf á fjárhagsaðstoð að halda og koma fleira fólki til sjálfshjálpar. Það hefur sannað sig að Atvinnutorg sé líkleg til árangurs en því miður fækkar fólki of hægt og telur hún því að ástæða sé til að bæta við ráðgjöfum til þess að hjálpa fólki enn frekar við að komast út á vinnumarkaðinn.

Lagt var til að velferðarsvið í samvinnu við fulltrúa Atvinnutorgs verði falið að koma með tillögu til velferðarráðs að því hvernig ná megi enn frekari árangri til að ná fram þessu helsta stefnumáli sviðsins. Tillögunni var frestað á fundi velferðarráðs sl. mánudag.