Gjaldskrá stýrir ákvörðunum foreldra

Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi

„Foreldrum er stýrt frá dagforeldrum og inn á leikskólana með gjaldskrám borgarinnar,“ sagði Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í ræðu sinni á borgarstjórnarfundi í fyrradag. Áslaug bendir á að dagforeldrakerfið sé mun ódýrara úrræði en að reka leikskóla. Með hverju barni á ungbarnaleikskóla greiði borgin 110-140 þúsund krónur en 46 þúsund hjá dagforeldrum. Þannig er mun dýrara að hafa barn hjá dagforeldri.

„Það er hægt að lækka kostnað foreldra og borgarinnar með því að styrkja dagforeldrakerfið,“ segir Áslaug en hún hefur áhyggjur af dagforeldrastéttinni vegna fækkunar barna sem hljóti að tengjast gjaldskránni.

„Eðlilegt er að foreldrar sem kjósa að nýta úrræði sem ódýrari eru fyrir skattgreiðendur fái að njóta þess. Eins og staðan er í dag er fólginn hvati í gjaldskránum til að velja annað en dagforeldra. Við þurfum að breyta þessu og gæta þess jafnframt að gott framboð sé á þjónustu við barnafjölskyldur og ungbarnaleikskólarnir eru klárlega liður í því. Einnig hafa komið fram athugasemdir við að almennu leikskólarnir bjóði mjög ungum börnum pláss. En um leið og slíkt pláss býðst þiggja foreldrarnir plássið enda lækkar kostnaður þeirra til muna, en hlutur borgarinnar verður að sama skapi meiri.“ bætir Áslaug María við.