Afgreiðsla máls tók rúmlega 3 ár

Halldór og Júlíus Vífill

Á borgarstjórnarfundi í gær fór fram umræða um áfangaskýrslu umboðsmanns borgarbúa. Embætti umboðsmanns borgarbúa var stofnað á borgarstjórnarfundi í maí 2012. Umboðsmaður borgarbúa á að leiðbeina íbúum í samskiptum þeirra við embætti og stofnanir borgarinnar og veita þeim ráðgjöf um rétt sinn.

Í skýrslunni sem talað var um á fundinum í dag segir að í upphafi var áætlað að á bilinu 60-100 mál myndu berast embættinu á tilraunatímabilinu en heildarfjöldi mála endaði í 423. „Af málafjölda má ráða að þörf hafi verið fyrir að taka á ýmsum málum í stjórnsýslunni. En spurningin er áleitin um hvort þörf hafi verið á sérstökum umboðsmanni borgarbúa til þess? Embætti sem átti í upphafi að vera 1 starfsmaður en er nú orðið 3 starfsmenn. Ættu ekki flest þessara mála að leysast ef aðgengi borgarbúa að stjórnsýslunni, borgarstjóra og eftir atvikum kjörnum fulltrúum er í lagi?“, sagði Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í borgarstjórn í gær.

Skýrslan segir einnig að margar kvartanir lúti að löngum málsmeðferðartíma og skorti á svörum við erindum. Eitt dæmið sem kemur fram í skýrslu tók Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi, fram í ræðu sinni. Þar er bent á að einn borgarbúi hafi sent erindi til umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar og hafi ekki fengið svar við erindi sínu, þrátt fyrir ítrekanir, fyrr en eftir 1221 dag eða 3 ár og 4 mánuði.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram breytingartillögu á fundinum sem lagði áherslu á að það að forsætisnefnd ynni að nánari skilgreiningu fyrir starfsemi umboðsmanns og gera tillögu að framtíð embættisins.

Breytingartillaga Sjálfstæðisflokksins vegna umboðsmanns borgarbúa

Lagt er til að tilraunaverkefni um umboðsmann borgarbúa verði framlengt um 18 mánuði. Á Þeim tíma er forsætisnefnd falið að vinna að nánari skilgreiningu fyrir starfsemi umboðsmanns og gera tillögu að framtíð embættisins með vísan til umfjöllunar í áfangaskýrslu umboðsmanns borgarbúa.

Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Áfangaskýrsla umboðsmanns borgarbúa