Hár launakostnaður vegna veikinda

Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi
Launakostnaður Reykjavíkurborgar hefur undanfarin ár verið mun hærri en áætlanir gera ráð fyrir vegna veikinda starfsmanna og álags vegna yfirvinnu og stórhátíða. Bara á velferðarsviði er líklegt að um 150 milljón króna skekkja sé vegna þessa í 6 mánaða uppgjöri sviðsins. Fleiri svið glíma við sama vanda, þannig að gera má ráð fyrir að samanlögð upphæð sé mun hærri á heildina litið. Málið var rætt á borgarstjórnarfundi í gær.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fluttu tillögu á fundinum sem lagði til að borgarstjórn samþykki að gera sérstakt átak til að skoða gagngert hvernig megi bregðast við, skoða hvort veikindin séu vinnutengd og þá hvort nauðsynlegt sé að gera breytingar á skipulagi vinnu starfsmanna.
Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi, mælti fyrir tillögunni okkar á fundinum í gær. Hún kvaðst ánægð með góðar viðtökur enda telur hún þetta mjög þarft mál. „Eftir góðar umræður þar sem meðal annars kom fram að ýmislegt væri í gangi í borgarkerfinu til að taka á þessum vanda var tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum“, sagði Áslaug María.
Það verður áhugavert að sjá hvernig nýr meirihluti ætlar að fylgja eftir málinu og að gera sérstakt átak í þessu máli sem nú hefur verið samþykkt samhljóða í borgarstjórn.