Meira gagnsæi í stjórnsýsluna

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tvær tillögur um gagnsæi í borgarkerfinu á borgarstjórnarfundi í gær. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, fór fyrir tillögum sem snerist um aukið gagnsæi í stjórnsýslu og hins vegar um aukið gagnsæi við ráðstöfun almannafjár.

Kjartan vill birta þau gögn sem eru lögð formlega fram á fundum nefnda og ráða borgarinnar á netinu ásamt fundargerðum svo þau eru sýnilegri almenningi. Einnig vill hann gera allar kostnaðargreiðslur borgarinnar sýnilegar almenningi á netinu.

Í samtali við Morgunblaðið í morgun segir Kjartan að þetta sé endurflutningur á sambærilegum tillögum frá 2012 sem hafa verið samþykktar áður í borgarstjórn. „En svo bara gerist ekkert í þessu og þetta eru bara léleg vinnubrögð og áhugaleysi,“ segir Kjartan. Hann segir ekki hafa fengið neinar skýringar á því hvað hafi tafið málið en hann telur framkvæmdina ekki flókna

Tillögurnar sem við lögðum fram eru hér að neðan.

 

 

Tillaga um að auka gagnsæi í stjórnsýslu borgarinnar og bæta upplýsingamiðlun til almennings 

Borgarstjórn samþykkir að auka gagnsæi í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar með því að birta gögn, sem formlega eru lögð fram á fundum nefnda og ráða borgarinnar, á netinu ásamt fundargerðum og gera þau þannig aðgengileg almenningi. Skrifstofu borgarstjórnar er falið að semja tillögu að reglum, sem tryggi að slík birting gagna byggist á málefnalegum forsendum í samræmi við stjórnsýslulög, upplýsingalög og lög um persónuvernd, fyrir 16. nóvember næstkomandi.

Þessi tillaga var send til stjórnkerfis- og lýðræðisráðs til frekari umfjöllun.

Tillaga um aukið gagnsæi við ráðstöfun almannafjár

Borgarstjórn samþykkir að upplýsingar um allar kostnaðargreiðslur borgarinnar verði gerðar almenningi tiltækar með rafrænum hætti á netinu. Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar er falið að skila tillögum um hvernig staðið verði að slíku verkefni fyrir 16. nóvember næstkomandi.

Þessi tillaga var felld.