Eldgos í Reykjavík?

Halldór og Júlíus Vífill

Halldór Halldórsson og Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúar, lögðu fram fyrirspurn í borgarráði í gær um stöðu almannavarnamála í Reykjavík, höfuðborgarsvæði og nágrenni. Jarðhræringar og eldgos sem nú eru norðan Vatnajökuls vekja upp spurningar um viðbúnað og viðbrögð á þéttbýlasta svæði landsins.

Sérstaklega óskuðu þeir eftir upplýsingum um hver staðan er varðandi forgreiningu á hættu af eldgosum, jarðskjálftum og sjávarflóðum og hvaða áhrif þau gætu haft á búsetusvæði sem og veitu- og samgöngumannvirki og þannig hið daglega líf hins almenna borgara. Óskuðu þeir eftir að fenginn verði sérfræðingur frá Almannavörnum á fund borgarráðs til að upplýsa um áhættumat fyrir höfuðbogarsvæðið og samstarf sveitarfélaga og viðbragðsaðila í þeim málaflokki.