Íbúar kvarta yfir Secret Solstice

secret-solstice
Secret Solstice, heitir tónlistarhátið sem fór fram í fyrsta skipti í Laugardalnum í Reykjavík í júní sl. Hátiðin gekk vel en bárust 19 kvartanir vegna hátíðarinnar.
Hverfisráð Laugardals tók til umræðu hátíðina á fundi sínum sl. mánudag og lagði ráðið fram umsögn um hátíðina.
Almennt séð gekk þessi hátíð vel í ár. Skipulag tónleikarahalda var gott, gestir ánægðir og engin meiriháttar áföll komu upp m.a. leitaði enginn til Neyðarmóttöku LSH vegna kynferðisbrota eftir þessa tónleikadaga. Þrátt fyrir að formlegar kvartanir íbúa vegna hátíðarinnar hafi ekki verið margar eða 19 talsins, þá ber að taka þær alvarlega. Það gerir ráðið og gerir því eftirfarandi athugasemdir við hátíðina sem taka verður tillit verði hún haldin aftur að ári:
A) Tónleikahaldarar verða að tryggja að öll hávaðamörk séu virt að fullu og leggja fram áætlun um hvernig þeir munu sjá til þess.
B) Til að draga frekar úr hávaða leggjum við líka til að útisviðum verði fækkað um eitt.
C) Flestar kvartanir íbúa komu frá Langholts- og Sunnuvegi. Tryggja verður að svið snúi ekki beint upp að þessum götum þannig að þau séu í beinni hljóðlínu frá tónleikastað.
D) Bæta þarf úr kynningu á hátíðinni og fyrirkomulagi hennar gagnvart íbúum. Kynningarfundur sem haldin var deginum áður en hún byrjaði núna í ár uppfyllti, að okkar mati, ekki þá kynningarskyldu sem að við teljum að hvíli á tónleikahöldurum.
E) Tónleikar í Skautahöllinni til kl. 05:00 gengur ekki upp svona nálægt íbúabyggð.
F) Dagskrá byrji seinna á daginn t.d. kl. 15:00 eða 16:00.
G) Útitónleikum sé lokið eigi síðar en kl. 23:30.
H) Leyfi fyrir hátíðinni verði veitt aðeins eitt ár í senn.
Með þessu telur hverfisráðið að komið sé til móts við athugasemdir íbúa og að uppfylltum þessum skilyrðum sé hægt að halda þessa hátíð í Laugardalnum í sátt við þá.
Lára Óskarsdóttir, varaborgarfulltrúi

Lára Óskarsdóttir, varaborgarfulltrúi, situr í Hverfisráði Laugardals