Vilja draga úr slysahættu gangandi og hjólandi vegfarenda

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi

Á borgarstjórnarfundi í dag lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að sérstakt átak yrði gert til að draga úr slysahættu gangandi og hjólandi vegfarenda. Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi, talaði fyrir tillögunni á borgarstjórnarfundi. „Það er mikið misræmi í milli sveitarfélaga hér á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar frágang á gangbrautum og í þeim efnum rekur Reykjavíkurborg því miður lestina. Í útfærslum gangbrauta í borginni er ekki farið að gildandi reglum og víða eru engar merkingar hvorki skilti, götumerkingar eða lýsing. Slysatölur sýna að við verðum að gera átak í þessum efnum. Flest slys á gangandi og hjólandi vegfarendum eru þegar verið er að þvera akbrautir og ef það er ekki gengið frá akbrautum með skýrum hætti erum við að auka á slysahættuna. Verkfræðistofa tók stöðuna út fyrir fáeinum árum en aðgerðir hafa ekki fylgt og þess vegna leggjum við fram þessa tillögu og höfum fulla trú á að hún verði samþykkt“, sagði Júlíus Vífill um málið.

Tillagan var svohljóðandi:

Í þeim tilgangi að draga úr slysahættu gangandi og hjólandi vegfarenda er lagt til að gert verði sérstakt átak í því að auka öryggi á gangbrautum í borginni en þar er mesta hætta á slysum. Aukning hefur orðið á alvarlegum slysum, einkum á hjólreiðafólki, og er nauðsynlegt að bregðast við því með öryggisráðstöfunum. Áhersla verði lögð á að samræma hönnun gangbrauta í Reykjavík, endurgera þær þar sem það reynist nauðsynlegt, auka lýsingu og bæta merkingar. Þá verði lögð áhersla á að gera zebra brautir á vegum þar sem það á við með gangbrautarskiltum báðum megin akbrauta eins og lýst er í handbók um umferðarmerki sem Vegagerðin og Reykjavíkurborg gaf út á síðasta ári. Horft verði til þess að skapa samræmi í umferðarmerkingum á höfuðborgarsvæðinu og leitað eftir samstarfi við önnur sveitarfélög um það. Fræðsla meðal almennings og í grunnskólum borgarinnar um það hvernig hjólandi og gangandi þvera akbrautir á sem öruggastan máta verði hluti af þessu átaki. Leitað verði eftir samstarfi við frjáls félagasamtök, Lögregluna og Strætó. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að móta áætlun sem lögð verði fyrir borgarráð og miðast við að átakið klárist á tveimur árum eða skemur ef hægt er.

Tillögunni var vísað til umræðu á næsta fundi umhverfis- og skipulagsráðs.