Enginn íbúafundur vegna Nýlendureits

russneskrettrunadarkirkja

Meirihluti Samfylkingarinnar, Bjartar Framtíðar, Vinstri grænna og Pírata felldi í dag tillögu Sjálfstæðisflokksins um að halda opinn íbúafund um skipulag Nýlendureits. Vildu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fara yfir fyrirhugaða staðsetningu kirkjulóðar á reitnum og tillögu um nýja staðsetningu á horni Seljavegar og Mýrargötu. Gott hefði verið ef að fulltrúar Íbúasamtaka Vesturbæjar og Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi hefðu mætt á fundinn og kynnt sjónarmið sín á fundinum. En nú verður ekkert úr þessum íbúafundi.

Júlíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sátu á borgarráðsfundi í morgun en þeir telja að opnir íbúafundir séu ein helsta leið borgarbúa til að láta rödd sína heyrast. Þegar óskir berast um að slíkir fundir verði haldnir ætti borgin að taka því fagnandi og bregðast við. Það vekur því furðu að tekið skuli neikvætt í að halda fund um skipulag Nýlendurreits og næsta nágrennis. Reynslan sýnir að íbúafundir geta verið uppspretta góðra hugmynda og oft hafa skoðanaskipti á milli borgar og borgarbúa við slík tækifæri skýrt það sem hefur verið óljóst. Meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata sem hefur lagt sig í líma við að kenna sig við lýðræði hafnar nú í annað skipti á skömmum tíma að funda með borgarbúum þrátt fyrir að óskir berist um slíkt.

Þeir létu bóka ofangreint á fundinum og lýstu yfir óánægju sinni með það að enginn íbúafundur færi fram um deiliskipulagið á Nýlendureit.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi