Umræða um opinn íbúafund

russneskrettrunadarkirkja

Á borgarstjórnarfundi í gær var tekin umræða um opinn íbúafund vegna deiliskipulags á Nýlendureit. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins létu nýlega vel í sér heyra í borgarráði um málið en nú kom umræða um málið í borgarstjórn.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu eftirfarandi eftir að umræðum lauk:

Opnir íbúafundir eru ein helsta leið borgarbúa til að láta rödd sína heyrast. Þegar óskir berast um að slíkir fundir verði haldnir ætti borgin að taka því fagnandi og bregðast við. Það vekur því furðu að tekið skuli neikvætt í að halda fund um skipulag Nýlendurreits og næsta nágrennis og tillögu um slíkt vísað frá í borgarráði. Reynslan sýnir að íbúafundir geta verið uppspretta góðra hugmynda og oft hafa skoðanaskipti á milli borgar og borgarbúa við slík tækifæri skýrt það sem hefur verið óljóst. Þó ferli máls sé langt er það ekki rökstuðningur fyrir því að ekki megi gera breytingar eða halda íbúafund til að útskýra niðurstöðu í máli. Borgarfulltrúar eru þjónar borgarbúa en ekki þrælar úreltra ákvarðana og gamalla fundargerða.


 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata lögðu fram svohljóðandi bókun:

Þar sem ekki hefur verið tekið undir hugmyndir um nýja staðsetningu Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar eftir skoðun umhverfis- og skipulagssviðs féll hugmynd um íbúafund um hana um sjálfa sig. Eðlilegast hefði verið að draga tillögu um fund til baka en þar sem það var ekki gert var henni vísað frá.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram svohljóðandi bókun:

Í samstarfssáttamála meirihlutans er auknu íbúalýðræði gert hátt undir höfði og sagt berum orðum að kynning og upplýsingagjöf til íbúa verði bætt í tengslum við skipulagsmál, stór og smá.  Út frá því trausti sem við vonumst til að geta lagt í yfirlýsingar samstarfssáttmálans teljum við Framsókn og flugvallarvinir það mjög ótrúverðugt að meirihlutinn vísi tillögu um íbúafund frá, án þess að hafa kjark til að hafna henni þá. Enn og aftur kemur meirihlutinn sér undan því að taka ákvarðanir, með frávísun og stjórna þannig í þögn. Verður ekki annað séð en að meirihlutinn ætli aðeins að hlusta á sumar raddir borgarbúa, þær sem hentar að hlusta á hverju sinni. Yfirlýsingar um aukið íbúalýðræði, samráð og aukan upplýsingagjöf eru því einungis, því miður, aðeins útvatnað stjórntæki til að slá ryki í augu borgarbúa, þegar hentar.