Vill að borgarstjórn samþykki áfengisfrumvarpið

Hildur Sverrisdóttir

Á fundi borgarstjórnar í gær lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram ályktunartillögu sem snýr að því að skora á Alþingi að samþykkja áfengisfrumvarpið svokallaða. Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi talaði fyrir tillögunni en Hildur vísaði ma. í aðalskipulag Reykjavíkurborgar en samkvæmt því skuli stuðla að því að dagleg verslun og þjónusta sé í sem mestri nálægð við íbúana svo hverfin séu sem sjálfbærust. Hún sagði að mikilvægur þáttur í því væri að hægt sé að versla svo algenga neysluvöru sem áfengi er í hverfunum sjálfum í almennum verslunum en ekki sé nauðsynlegt að sækja hana í öðrum hverfum í útjöðrum borgarinnar. Slíkt fyrirkomulag vinni gegn áherslum aðalskipulags um sjálfbær hverfi og vinni gegn heiðarlegu tækifærum hverfisverslana í samkeppni við stórmarkaðina sem hafa þær örfáu Vínbúðir ríkisins í nágrenni við sig.

Borgarstjóri gerði að tillögu sinni að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. Hildur segir að það valdi vonbrigðum: „Borgarstjórn á að nota öll þau tækifæri sem gefast til að hvetja til ákvarðana sem munu verða borginni til góðs. Það er engin ástæða til að varpa þessu máli til meðferðar borgarráðs heldur var hún tæk til afgreiðslu. Skemmst er að minnast að það var síðast í vor þegar meirihluti borgarstjórnar samþykkti að hvetja alþingi til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Það er vandséð hvernig það mál sé umfangsminna eða í meiri tengslum við borgina heldur en það mál að borgarbúar geti verslað áfengi í sínu hverfi. En það er óskandi að tillagan dagi ekki uppi í borgarkerfinu heldur verði afgreidd sem fyrst“, segir Hildur.

Ályktunartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins
Borgarstjórn skorar á Alþingi að samþykkja áfengisfrumvarpið svokallaða sem kveður á um að áfengi verði selt í verslunum. Slík breyting á verslun með áfengi er mikið og mikilvægt hagsmunamál fyrir borgina og borgarbúa þar sem hún mun stuðla að markmiðum nýs aðalskipulags borgarinnar um sjálfbærni hverfa svo að borgarbúar geti nálgast daglega verslun og þjónustu í nærumhverfi sínu. Áfengi er hluti af neysluvöru borgarbúa og ljóst að fáar og illa staðsettar áfengisverslanir ríkisins vinna gegn þeirri þróun. Verslun með áfengi í hverfisverslunum mun hins vegar stuðla að því markmiði aðalskipulags að umhverfi daglegrar verslunar borgarbúa verði hverfisvæddara í nærumhverfi borgarbúa á sjálfbærari og samkeppnis- og umhverfisvænni hátt.