Vantar nýja hugsun í rekstur borgarinnar

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Á borgarstjórnarfundi í gær fór fram síðari umræða um fjárhagsáætlun. Ljóst er að aðalsjóður skilar hálfs milljarðs króna halla og útsvarið er áfram í hámarki. Halldór Halldórsson, oddviti borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins, segir að það vanti nýja hugsun í rekstur borgarinnar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu svohljóðandi undir fjárhagsáætlun:  „Hálfs milljarðs króna halli á aðalsjóði borgarinnar, útsvarið áfram í hæstu mögulegu hæðum og skortur á nýrri hugsun er einkenni á fyrstu fjárhagsáætlun meirihlutaflokkanna fjögurra í Reykjavík. Hallarekstur aðalsjóðs kemur í veg fyrir að eignasjóður borgarinnar geti staðið undir þeim verkefnum sínum að halda við eignum borgarinnar eins og sjá má á skólahúsnæði og öðru mikilvægu húsnæði í eigu Reykjavíkurborgar. Eignasjóður fær það verkefni að standa undir halla aðalsjóðs í stað þess að nýta leigutekjur sínar frá einstökum stofnunum eins og skólum til að sinna viðhaldi þeirra. Stofnanir borga leigu til eignasjóðs en fá ekki eðlilega þjónustu til baka því eignasjóður er upptekinn við að bjarga aðalsjóði sem á að standa undir rekstri með skatttekjum.

Samkvæmt nýrri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 heldur meirihlutinn í Reykjavík áfram að reka sömu stefnu og frá síðasta kjörtímabili. Kostnaður meðalfjölskyldu í Reykjavík með þrjú börn er 2,2 milljónir sem hún greiðir til borgarinnar á ári að meðtöldu útsvari. Núverandi meirihluti ætlar að halda áfram að auka álögur á fjölskyldur borgarinnar líkt og síðasti meirihluti gerði. Þriggja barna fjölskylda þarf nú að greiða 25,5% meira fyrir þjónustu Reykjavíkurborgar en hún gerði árið 2010. Fjölskyldan borgar 561.000 kr. meira á næsta ári en hún gerði árið 2010 eða nálægt 10% meira en hækkun verðlags á sama tíma.

Áfram er haldið að þenja út kerfið á kostnað almennings eins og stofnun nýs stjórnkerfis- og lýðræðisráðs sem mun kosta allt að 250 m.kr. á kjörtímabilinu ber með sér. Nær hefði verið að nýta þau úrræði sem þegar eru til staðar innan borgarkerfisins fyrir þessi verkefni og lækka álögur á borgarbúa frekar en að stækka kerfi sem þegar er orðið of stórt. Skattgreiðendur í Reykjavík borga.“