Breytingar í velferðarþjónustunni eru óumflýjanlegar

Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tuttugu breytingartillögur við fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2015 á borgarstjórnarfundi í gær. Fjárhagsáætlunin var meginumræðuefni fundarins en var fundi slitið rétt yfir miðnætti.

Breytingartillögurnar fjölluðu um umbætur í velferðarmálum í ljósi þess að óbreytt fyrirkomulag þjónustunnar mun ekki mæta þörfum íbúa í næstu framtíð. Nauðsynlegt sé að fjárfesta í nýsköpun, tækni og rannsóknum í velferðarmálum enda standi þjónustan á tímamótum. Áhersla var lögð á að hefja óumflýjanlegt breytingarferli í þjónustunni með því að hefja greiningarvinnu, gera tilraunaverkefni og flýta fyrir innleiðingu tæknilausna.

„Nýsköpun er háð því að stjórnendur og starfsmenn hafi frelsi og getu til að prófa nýjar hugmyndir og leiðir til að nálgast verkefni sín. Starfsumhverfið, viðhorf og menning fyrirtækja geta þar skipt sköpum. Nauðsynlegt er að rekstrarumhverfi mismunandi eininga innan velferðarsviðs verði tekið til skoðunar hvað þetta varðar“, var meðal þess sem fram kom í ræðu Áslaugar Maríu Friðriksdóttur þegar hún fylgdi velferðartillögunum úr hlaði. „Bæði niðurstöður úr nýútkominni skýrslu umboðsmanns borgarbúa og viðtöl við starfsfólk og notendur renna miklum grunsemdum um að slíkt umhverfi sé ekki til staðar.“ Áslaug sagði að slík greining á rekstrarumhverfinu yrði gríðarlegur stuðningur við stjórnendur, starfsfólk og notendur velferðarsviðs og gæti orðið grunnur að nauðsynlegum umbótum og breytingum.

Vilja spara milljarð á næstu 4 árum
Einnig var lögð fram tillaga um aukna áherslu á virkni og þátttöku fólks með fjárhagsaðstoð. Með því að leita í reynslubanka annarra sem unnið hafa markvissar að virkni má vel rökstyðja það að töluverður slaki sé til staðar hvað varðar fjárhagsaðstoð í Reykjavík. Sjálfstæðismenn telja að með breyttu verklagi megi spara milljarð í málaflokknum á næstu 4 árum.