Skuldsetta Reykjavík

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 ásamt fimm ára áætlun fyrir borgarsjóð (A-hluta) og fyrirtæki borgarinnar (B-hluta) var samþykkt á borgarstjórnarfundi 2. desember af meirihluta borgarstjórnar.

Samanlagt eru A- og B-hluti kallaðir samstæða borgarinnar. Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir jákvæðri útkomu samstæðunnar sem er eins gott því Reykjavíkurborg er mjög skuldsett sveitarfélag með skuldahlutfall 195% af tekjum ársins þegar hámarkið skv. sveitarstjórnarlögum er 150%.

Lesendur hafa eflaust orðið varir við að fjögurra flokka vinstri meirihlutinn í Reykjavíkurborg stærir sig af góðum rekstri og að árangur hafi náðst. Vissulega hefur árangur náðst hvað samstæðuna varðar því Orkuveita Reykjavíkur vegur þar þyngst og það fyrirtæki hefur alla tíð haft alla burði til að rétta úr kútnum þrátt fyrir meðferð R-listans sáluga á því ágæta fyrirtæki. En það hefur verið góð samstaða á síðasta kjörtímabili og verður vonandi áfram á þessu kjörtímabili um að takast á við rekstrar- og skuldavanda Orkuveitunnar.

Aðalsjóður áhyggjuefni

Þegar við lítum á A-hlutann er áhyggjuefni að skuldir hans hafa vaxið úr 47,8 milljörðum kr. árið 2010 í 65,3 milljarða sem áætlað er að skuldirnar verði í lok ársins 2015. Þetta er 36% hækkun skulda sem er umfram almenna verðlagsþróun.

Aðalsjóður á að fjármagna sín verkefni með skatttekjum en getur það ekki og hefur ekki getað um nokkurn tíma. Peningarnir sem rekstur aðalsjóðs skilar (veltufé frá rekstri) minnka ár frá ári hjá núverandi meirihluta. Fjárhagsáætlun 2015 gerir ráð fyrir að hallinn á aðalsjóði verði fimm milljarðar kr. Það eru svo stórar tölur að til að setja þær í samhengi mætti t.d. kaupa 1.700 nýja Yaris-bíla. Til að loka halla aðalsjóðs er eignasjóður notaður til að greiða stórar fjárhæðir inn í aðalsjóðinn með þeim afleiðingum að eignasjóður hefur ekki nægt fjármagn til að sinna nauðsynlegu viðhaldi eigna. Það má sjá á skólamannvirkjum eins og Breiðholtsskóla.

Svigrúm til skattalækkunar á borgarbúa skapast ekki þegar reksturinn er eins og fjárhagsáætlun ársins 2015 ber með sér. Til að skapa slíkt svigrúm þarf að hefja minnkun kerfisins í áföngum og gera það sjálfbærara. Lækkun útsvars er besta kjarabótin fyrir heildina en það er engin von til þess að vinstri meirihlutinn í borgarstjórn skuldsettu Reykjavíkur fari í þá nauðsynlegu vegferð.

Halldór Halldórsson
Birtist í Morgunblaðinu 6.12.2014.