Sveigjanlegri þjónusta vegna þrifa

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins

Í seinnu umræðu um fjárhagsáætlun borgarinnar lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um sveigjanleika í þjónustu vegna þrifa.

Tillagan var svohljóðandi: Tilraun verði gerð með sveigjanlegri þjónustu velferðarsviðs vegna þrifa. Ef fólk vill sækja þrif annað en til velferðarsviðs skal gera því það kleift. Samningar verði með þeim hætti að greitt verði fyrir þær klukkustundir sem viðkomandi fékk metið að á þyrfti að halda hjá sviðinu. Greitt verði fyrir þær klukkustundir sem viðkomandi er í þörf fyrir samkvæmt mati sviðsins. Reiknað verði tímagjald á klukkustund út frá þeim kostnaði sem sviðið ber vegna sömu þjónustu. Þó aldrei lægra tímagjald en reiknað hefur verið vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar samanber handbók velferðarráðuneytisins. Fylgst verði með ánægju fólks með þjónustuna fyrir og eftir.

Meirihlutinn í borginni felldi tillöguna og sagði að unnið sé að útfærslum að þessu á velferðarsviði.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vita að unnið er að þessu á velferðarsviði, en telja þörf á að leggja enn meiri áherslu á verkefnið. Nauðsynlegt er að fylgjast með ánægju með þjónustu fyrir og eftir breytingar.