Gjaldþrot blasir við tónlistarskólum í Reykjavík

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi harðlega það „vonlausa rekstrarumhverfi“ eins og hann orðaði það, sem meirihluti borgarstjórnar hefur búið tónlistarskólunum. „Ég setti málefni tónlistarskóla í Reykjavík á dagskrá borgarstjónarfundarins til að fá fram umræðu um það alvarlega ástand sem við blasir. Mér finnst það ábyrgðarleysi af borgarfulltrúum meirihlutans að gera framlög til skólanna að bitbeini í átökum við ríkið um það hvort ríki eða borg eigi að greiða fyrir framhaldsmenntun tónlistar.  Það er mjög stutt í að þau átök munu ekki skipta neinu máli vegna þess að það verða engir tónlistarskólar sem kenna á framhaldsstigi til að taka við framlögunum. Það gæti gerst á næstu vikum. Þá getum við líka hætt að reka Listaháskóla Íslands. Án framhaldsmenntunar verður enginn háskóli“, segir Júlíus Vífill Ingvarsson.

Bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Gjaldþrot blasir við tónlistarskólum í Reykjavíkurborg. Á undanförnum misserum hafa nemendur og starfsfólk þeirra tónlistarskóla, sem hafa verið máttarstólpar íslensks tónlistarlífs, búið við algjöra óvissu og mátt þola það að vita ekki hvort kennslu verði haldið áfram frá mánuði til mánaðar. Andvaraleysi meirihluta borgarstjórnar þegar kemur að tónlitarmenntun kemur fram í því að tónlistarskólum er búið rekstrarumhverfi sem er algjörlega óraunhæft. Það er skýr niðurstaða skýrsluhöfunda sem gerðu greiningu á fjárhagsvanda tónlistarskóla í Reykjavík á miðju þessu ári. Nú er staðan orðin það alvarleg að það þarf sérstakt átak til að endurreisa rekstur og liststarfsemi skólanna enda mun einföld hækkun framlaga til þeirra varla duga til að þeir nái fyrri styrk. Meirihluti borgarstjórnar hefur frá árinu 2011 gert tónlistarskólana að bitbeini í hörðum deilum við ríkið um það hvort ríki eða borg eigi að bera kostnað af framhaldsstigi tónlistarmenntunar. Slík framganga er algjörlega óábyrg. Orðalag samkomulags um eflingu tónlistarnáms sem undirritað var í maí 2011 gefur ekki tilefni til þeirrar túlkunar sem meirihluti borgarstjórnar hefur kosið að halda fram. Samkomulagið fjallar ekki um yfirtöku ríkisins á framlagi til framhaldsmenntunar í hljóðfæranámi og mið- og framhaldsstigi í söng heldur samþykkir ríkið aðkomu að kennslukostnaði og það orðalag er ekki hægt að túlka sem yfirtöku á öllum fjárframlögum til framhaldsstigsins. Áður er borgin neitar að greiða þann kostnað sem fellur til umfram framlag ríkisins ætti hún að skoða vel réttarstöðu sína enda ekki ólíklegt að málið fari fyrir dómstóla. Verst af öllu er það tjón sem unnið hefur verið á tónlistarlífi borgarinnar til framtíðar.