Ferðaþjónusta fatlaðra óviðunandi

Halldór á RÚV

Mörg mistök í langan tíma hjá Strætó vegna ferðaþjónustu fatlaðra eru óviðunandi og verður að linna. Alltof mikið sé fyrir fatlaða að greiða 1100 krónur fyrir hverja ferð eftir að mánaðarlegum ferðafjölda er náð. Þetta sagði Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni í samtali við kvöldfréttir RÚV í gær.

Öll þau sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem nota ferðaþjónustu fatlaðra hjá Strætó hafa fengið kvartanir. Kópavogur er ekki með en önnur sveitarfélög á svæðinu að Reykjavík undanskilinni byrjuðu að nota þjónustuna um áramótin. Reykjavík hefur notað hana lengur. Vandræðin byrjuðu 1. nóvember þegar nýtt tölvukerfi var tekið í notkun og nýr undirverktaki Strætós tók við akstrinum. Strætó þarf að skila tímasettri áætlun um betrumbætur til velferðarráðs borgarinnar fyrir 22. janúar.

Minnihlutinn í borginni hefur farið fram á að málið verði tekið upp í borgarráði: „Vegna þess að það er eitthvað mikið að í framkvæmdinni á þessu máli,“ segir Halldór. Hann segir að ákveðið hafi verið að fara í breytingarnar til að bæta þjónustuna en það var í maí síðastliðnum að sveitarfélögin skrifuðu undir samkomulag við Strætó.

„Ég held að flestir ef ekki allir sem komu að því hafi trúað að þetta yrði til góðs en enginn séð það fyrir að framkvæmdin myndi misheppnast svona. Og þetta eru það mörg mistök og þetta er búið að standa það lengi yfir að það er alveg óásættanlegt og því verður að fara að linna.“ Halldór segir að nú þegar kerfið ráði ekki við þetta þurfi að bæta við mannskap og bílum meðan verið sé að ná tökum á þessu. Hann segir að svara þurfi því af hverju nýtt tölvukerfi hafi brugðist, hvort farið hafi verið of geyst í breytingarnar og líka þurfi að skoða gjaldskrána, hún sé ekki ásættanleg: „Eftir 60 ferðir að þá er orðið mjög dýrt að ferðast með ferðaþjónustu fatlaðra, kostar 1100 krónur ferðin, og það er bara alltof mikið.“ Hann segir stjórnvöld verða að vera sjálfum sér samkvæmt þegar þau tala fyrir því að fólk taki virkan þátt í þjóðfélaginu og segir málið ekki þola neina bið.

Heimild: RÚV (Kvöldfréttir)

Uppfært: Halldór var einnig í viðtali við Reykjavík síðdegis á föstudaginn.