Skoða bætt öryggi við Hringbraut

hringbraut

Í nóvember lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að gripið yrði til aðgerða í því skyni að tryggja börnum og ungmennum örugga gönguleið yfir Hringbraut á kaflanum milli Melatorgs og Grandatorgs. Gerði tillagan ráð fyrir því að skoðaðir yrðu tiltækir kostir varðandi göngubrú annars vegar og undirgöng hins vegar og æskilegt staðsetning slíkra mannvirkja metin út frá gönguleiðum barna og ungmenna yfir Hringbraut. Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs samþykktu fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna umsögn þar sem umræddri tillögu er í raun hafnað með þeim rökstuðningi að þrengsli komi í veg fyrir göngubrú eða undirgöng á þessum stað. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi sagðist vera ósammála þeirri niðurstöðu þar sem honum var kunnugt um að erlendis hefur slíkum mannvirkjum víða verið komið fyrir í jafnvel enn þrengri aðstæðum en hér við Hringbraut.

Eftirfarandi er bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins við afgreiðslu málsins:
,,Á hverjum degi ganga börn og ungmenni yfir Hringbraut á leið sinni í skóla og íþróttir. Oft hefur legið við slysum enda er Hringbraut fjögurra akreina stofnbraut þar sem bílumferð er þung. Óumflýjanlegt er að bregðast við og tryggja umferðaröryggi gangandi vegfarenda. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins gengur út á að velta upp öllum kostum sem aukið geta öryggi og að grípa til aðgerða sem fyrst. Í skýrslu Mannvits frá árinu 2009 er tekið saman með hvaða hætti hægt er að gera undirgöng og bent á þrjár mögulegar staðsetningar. Líklega þarf að skoða betur hvort og með hvaða hætti hægt er að koma við göngubrú yfir Hringbraut líkt og gert hefur verið víða um borgina. Umsögn sem meirihlutaflokkarnir í Umhverfis- og skipulagsráði hafa samþykkt lokar á frekari skoðun þessa máls nema hugsanlega að lengja græntíma gönguljósa. Það er að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokks algjörlega ófullnægjandi.“

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi


Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi


Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi

Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi