Innkaupamál borginnar í rugli?

Ráðhús Reykjavíkur
Á fundi borgarráðs í gær var lögð fram eftirfylgnisúttekt vegna skýrslu innri endurskoðunar á innkaupamálum Reykjavíkurborgar. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýndu skýrsluna harkalega á fundinum og sagði hana vera mikinn áfellisdóm yfir því hvernig er staðið að innkaupum á vegum Reykjavíkurborgar.
Bættu þeir við í bókun sinni: „Sú skýrsla er eftirfylgni við úttekt innri endurskoðanda á innkaupamálum frá upphafi árs 2010. Þar koma fram fjölmörg varnaðarorð og ábendingar frá innri endurskoðanda um það hvernig bæta má innkaupaferlið en nú er ljóst að ekkert hefur verið gert með þessar mikilvægu vinnu. Þar kemur einnig fram að velta rammasamninga og miðlægra samninga í heildarinnkaupum var of lítil í hlutfalli af heildarinnkaupum borgarinnar eða í kringum 14% og að í því felist tækifæri til að bæta innkaupin með því að auka það hlutfall. Í bréfi sínu til borgarráðs í dag segir innri endurskoðandi: „Skemmst er frá að segja að engar ábendingar í skýrslu innri endurskoðunar frá árinu 2010 hafa fengið fullnægjandi úrbætur og umbótaverkefni hafa einungis að litlu leyti verið unnin.““
Borgarráð beindi því til fjármálaskrifstofu að fara yfir niðurstöður úttektarinnar og leggja fram í borgarráði umsögn og áætlun um viðbrögð við ábendingum sem þar koma fram.

Málið verður tekið upp á fundi borgarstjórnar á þriðjudaginn 20. janúar nk.