Vilja skoða útboðsferli ferðaþjónustu fatlaðra

ferdathjonustafatladra

Ferðaþjónusta fatlaðra var á dagskrá borgarstjórnarfundar á þriðjudaginn en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa gagnrýnt undanfarið hvernig staðið hefur verið að þjónustu ferðaþjónustu fatlaðra. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu á fundinum sem snýr af því að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar skoðar og leggi mat á útboðsferlið og útboðið í heild sinni fyrir ferðaþjónustu fatlaðra.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka að ekki verður unað við þá grafalvarlegu stöðu sem er á framkvæmd ferðaþjónustu við fatlaða. Gengið var frá samkomulagi um þessa þjónustu í maí 2014 þannig að tíminn til að undirbúa breytingar á henni hefði átt að vera nægur en hann hefur verið illa nýttur. Breytingarnar áttu að bæta þjónustuna en hafa ekki enn gert það heldur þveröfugt eins og sjá má á fjölda alvarlegra kvartana frá notendum þjónustunnar. Ábyrgð á þessu máli gagnvart þjónustuþegum í Reykjavík hvílir alfarið á meirihlutanum í Reykjavík sem ekki hefur staðið vaktina í þessu stóra þjónustumáli heldur látið reka á reiðanum þar til vandinn skall á notendum þjónustunnar.

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Mikilvægt er að læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið með breytingum á ferðaþjónustu fatlaðra og greina sem flesta þætti þess máls. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar er falið að leggja mat á útboðsferli og skilmála vegna útboðs fyrir ferðaþjónustu fatlaðra.  Útboðið verði skoðað í heild sinni. Lagt verði til dæmis mat á hvort tími sem gefinn var til fjárfestingar hafi verið fullnægjandi, reynsla bílstjóra og annars starfsfólks hafi verið nægilega hátt metin og hvort gefinn hafi verið nægilegur tími til þjálfunar þess. Þá verði skoðað hvort svigrúm Strætó bs við mat á þátttakendum í útboðinu hafi verið nægilegt.

Samþykkt var að vísa tillögunni til borgarráðs til frekar umfjöllunar.