Áfellisdómur yfir innkaupamálum hjá borginni

radhusrvk

Á borgarstjórnarfundi á þriðjudaginn stóðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fyrir umræðum um innkaupamál Reykjavíkurborgar í kjölfar skýrslu innri endurskoðunar á innkaupamálum Reykjavíkurborgar sem birt var í borgarráði í síðustu viku.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fór fyrir umræðum um málið og sagði ma. „Í stað þess að auka vægi innkaupaskrifstofu var hún lögð niður og verkefni hennar færð inn í deild á fjármálaskrifstofu. Með því hefur verið dregið úr sjálfstæði innkaupaeiningarinnar og möguleikum hennar á að halda utan um innkaupin. Það er alveg ljóst að það gengur ekki að yfir þúsund manns gangi um og kaupi inn í nafni Reykjavíkurborgar án þess að eftirlit sé með því. Slík staða getur skapað hættu á  mistökum og misferli og kallar á gríðarlegt eftirlit ef vel á að vera. Þessu verður að breyta . Þó ég sé öllu jafna ekki talsmaður miðstýringar þá verður að koma í veg lausatök í fjármálum eins og þessi.“

Bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Innri endurskoðunar hefur fellt mikinn áfellisdóm yfir því hvernig staðið hefur verið að innkaupamálum hjá borginni. Innri endurskoðun gagnrýnir harðlega skort á eftirfylgni og utanumhaldi á þessum útgjaldalið. Innkaup sem voru rúmlega 9 milljarðar á síðasta ári eru meðal fjárfrekustu útgjaldaliða borgarinnar en enginn einn aðili hefur yfirsýn yfir öll innkaup og miðlæg stýring er takmörkuð.

Í skýrslu Innri endurskoðunar frá árinu 2010 voru settar fram 12 mjög skýrar ábendingar um úrbætur í innkaupamálum en þeim ábendingum hefur í engu verið sinnt. Á sama tíma vann Innri endurskoðun með starfsfólki innkaupaskrifstofu að áhættumati og út úr þeirri vinnu komu 22 skilgreind umbótaverkefni. Ekkert hefur heldur verið gert með þessa vinnu. Verulega skortir á að upplýsingar um innkaup séu fullnægjandi og er það meðal þess sem er gagnrýnt. Unnin var samantekt og greining á innkaupamálum árið 2008 af Capacent en þar kemur fram að einungis 14% af innkaupum eru gerð með rammasamningum og miðlægum samningum. Nákvæmari upplýsingar liggja ekki fyrir en talið er að hlutfallstalan hafi hækkað. Um 1.200 starfsmenn hjá Reykjavíkurborg virðast hafa heimild til þess að gera innkaup upp á 7 milljarða á ári. Eins og furðulegt og það kann að hljóma liggja ekki fyrir upplýsingar um það hversu mörg innkaupakort eru í notkun í Reykjavíkurborg. Lang stærstur hluti innkaupa er sem sagt án alls eftirlits. Ekki er gerð áætlun um innkaup í fjárhagsáætlun næsta árs sem dregur enn frekar úr utanumhaldi og gegnsæi.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi