Ósannindi Dags B. Eggertssonar um sameiningarklúðrið

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi

Það hefur nú verið staðfest að illa var staðið að sameiningarferli skóla og öðrum kerfisbreytingum í skólamálum hjá Reykjavíkurborg á síðasta kjörtímabili. Fram kemur í úttekt óháðs ráðgjafafyrirtækis á breytingunum að samráð hafi verið algerlega ófullnægjandi auk þess sem skorti framtíðarsýn og faglegar og fjárhagslegar forsendur. Sameiningarferlið fær í heild falleinkunn í úttektinni.

Engum dylst að úttektin er ekki síst áfellisdómur yfir vinnubrögðum meirihluta Samfylkingar og Bjartrar framtíðar (Besta flokksins) á síðasta kjörtímabili og þá ekki síst Dags B. Eggertssonar, þáverandi formanns borgarráðs, sem stýrði umræddum stjórnsýslubreytingum.

Sjálfstæðisflokknum kennt um

Í Morgunblaðinu sl. laugardag reynir Dagur að réttlæta þetta risavaxna klúður með því að kenna Sjálfstæðisflokknum um. Orðrétt segir Dagur: „Sjálfstæðisflokkurinn, sem studdi sameiningarnar framan af, féll í þá freistingu þegar andstaða kom fram, að breyta afstöðu sinni að fullu og gera allt í ferlinu tortryggilegt.“

Þarna fer Dagur með hrein ósannindi um afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Við borgarfulltrúar flokksins studdum aldrei umræddar breytingar eins og ljóst má vera hverjum þeim sem fylgdist með umræðum um þær á sínum tíma og þá sérstaklega Degi, aðalskipuleggjanda aðgerðanna.

Í nóvember 2010 var starfshópur skipaður um greiningu til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, en þá var vinna vegna fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2011 þegar á lokastigi. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þáðu boð um að tilnefna fulltrúa í hópinn enda að sjálfsögðu ætíð reiðubúnir til þess að greina tækifæri til hagræðingar og faglegs ávinnings.

Um leið og starfshópurinn kom saman, kom í ljós að fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans vildu hraða vinnunni sem mest og voru reiðubúnir að víkja frá viðurkenndum aðferðum breytingastjórnunar í því skyni að skila tillögum um sameiningu skóla af sér sem fyrst. Frá upphafi liðu fagleg vinnubrögð breytingastjórnunar fyrir þennan asa.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í starfshópnum, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, gerði athugasemdir við þessi flausturslegu vinnubrögð og varaði við því að tillögur yrðu lagðar fram nema á grundvelli ýtarlegrar greiningar á faglegum og fjárhagslegum forsendum sem og að undangengnu ýtarlegu samráði við foreldra, nemendur og starfsfólk borgarinnar. Ekki var orðið við ítrekuðum óskum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um grundvallarupplýsingar í málinu fyrr en tillögur meirihlutans höfðu verið mótaðar. Kom þá þegar í ljós að þær snerust miklu frekar um tilfærslur á fé innan kerfisins en raunverulega hagræðingu og að faglegur ávinningur væri óljós og jafnvel neikvæður eins og komið hefur á daginn.

Vinnubrögðin harðlega gagnrýnd

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sáu snemma í ferlinu hvað verða vildi og vöruðu þá þegar við óviðunandi vinnubrögðum en studdu þau ekki eins og Dagur leyfir sér að halda fram. Um þetta vitna fjölmargar fundargerðir borgarstjórnar, borgarráðs og menntaráðs Reykjavíkur fyrstu mánuði ársins 2011.

Á fundi menntaráðs 26. janúar 2011 gagnrýndu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og VG skort á samráði við helstu hagsmunaaðila og lögðu til að strax yrði efnt til opinna kynninga- og samráðsfunda um fyrirhugaða endurskipulagningu í öllum hverfum borgarinnar. Tillagan hlaut ekki stuðning meirihlutans.

Á fundi menntaráðs 9. febrúar kom fram hörð gagnrýni vegna samráðsskorts og vinnubragða borgarstjórnarmeirihlutans í málinu frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna, Samtökum foreldrafélaga í Reykjavík, starfsfólks í leikskólum, Félags skólastjórnenda og foreldrafélaga leikskóla. Næstu mánuði voru lagðar fram fjölmargar bókanir í ráðinu og í borgarstjórn þar sem fulltrúar framangreindra aðila gagnrýndu vinnubrögð borgarstjórnarmeirihlutans og óskuðu eftir raunverulegu samráði vegna boðaðra breytinga. Meirihluti Samfylkingar og BF virti allar slíkar óskir að vettugi og gerði t.d. ekkert með tillögu Sjálfstæðisflokksins, sem lögð var fram í borgarstjórn 15. febrúar, um aukið samstarf við foreldra, starfsfólk og stjórnendur í þessari vinnu. Á þessum tíma var málið auðvitað margoft rætt í fjölmiðlum og á vettvangi borgarstjórnar og kom þar skýrt fram að við sjálfstæðismenn gætum ekki stutt slík vinnubrögð. Kom því engum á óvart að við greiddum atkvæði gegn vinnubrögðunum með margvíslegum hætti í nefndum og ráðum borgarinnar og síðan gegn sjálfum tillögunum þegar þær komu til endanlegrar atkvæðagreiðslu í borgarstjórn 19. apríl 2011.

Ótrúlegt er að Dagur, sem nú gegnir stöðu æðsta embættismanns Reykjavíkurborgar, skuli reyna með ósannindum að kenna Sjálfstæðisflokknum um skólaklúðrið mikla á síðasta kjörtímabili, sem hann sjálfur ber höfuðábyrgð á. Dagur væri maður að meiri ef hann viðurkenndi eigið klúður og bæði borgarbúa afsökunar á þessum ósannindum sem og því hversu illa var staðið að stjórn skólamála í Reykjavík kjörtímabilið 2010-2014, sem ýmsir hafa nefnt týnda kjörtímabilið í skólamálum hjá Reykjavíkurborg.