Staða ferðaþjónustu fatlaðra grafalvarleg

ferdathjonustafatladra

Á fundi borgarráðs var samþykkt samhljóða að neyðarstjórn yrði skipuð yfir ferðaþjónustu fatlaðra undir forystu Stefáns Eiríkssonar sviðsstjóra velferðarssviðs Reyjavíkurborgar. Hlutverk stjórnarinnar er að tryggja örugga og eðlilega þjónustu og framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðra eins fljótt og kostur er. Stjórnin hafi fullt umboð til að gera þær breytingar sem hún telur nauðsynlegar til að bæta úr í þjónustu og framkvæmd og hafi jafnframt fullt umboð til að gera tillögur að grundvallarbreytingum á fyrirkomulagi eða framkvæmd þjónustunnar til framtíðar. Er þetta gert í kjölfar þess að ung þroskaskert kona fannst týnd í einum bíl ferðaþjónustu fatlaðra eftir að hafa setið þar inni í 7 klst.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýndu þá grafalvarlegu stöðu sem væri á framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðra og bókuðu svohljóðandi um málið á fundinum í dag:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja tillögu um skipun neyðarstjórnar vegna ferðaþjónustu fatlaðra enda er staða mála verulega alvarleg og hefur verið of lengi. Á þetta hefur verið bent eins og sjá má í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarráði 15. janúar sl. um að ekki verði lengur unað við þá grafalvarlegu stöðu sem er á framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðra. Þar voru jafnframt lagðar fram spurningar í 8 liðum sem svör hafa enn ekki borist við. Einnig er vísað til tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn 20. janúar sl. sem kveður á um að gerð verði úttekt á útboði ferðaþjónustunnar og tengdum þáttum.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að neyðarstjórn sem skipuð verður helgi sig verkefninu algerlega þar til búið er að ná tökum á framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðra.

Bókun Sjálfstæðisflokksins 15. janúar 2015

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að ekki verði unað við þá grafalvarlegu stöðu sem er á framkvæmd ferðaþjónustu við fatlaða. Gengið var frá samkomulagi um þessa þjónustu í maí 2014 þannig að tíminn til að undirbúa breytingar á þjónustunni hefði átt að vera nægur. Breytingarnar áttu að bæta þjónustuna en hafa ekki enn gert það heldur þveröfugt eins og sjá má á fjölda alvarlegra kvartana frá notendum þjónustunnar. Á þetta lögðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins áherslu við samþykkt í borgarráði 11. desember 2014 og bókuðu að mikilvægi þess að biðtími styttist frá því sem verið hefði og ætti ekki að vera meiri en 10 mínútur frá umsömdum tíma. Þá telja borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að endurskoða verði gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík vegna þess að gjald fyrir ferðir umfram 60 á mánuði er of hátt og stangast á við lög sem kveða á um að gjaldið eigi að taka mið af gjaldi fyrir almenningssamgöngur.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn 20. janúar

Mikilvægt er að læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið með breytingum á ferðaþjónustu fatlaðra og greina sem flesta þætti þess máls. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar er falið að leggja mat á útboðsferli og skilmála vegna útboðs fyrir ferðaþjónustu fatlaðra. Útboðið verði skoðað í heild sinni. Lagt verði til dæmis mat á hvort tími sem gefinn var til fjárfestingar hafi verið fullnægjandi, reynsla bílstjóra og annars starfsfólks hafi verið nægilega hátt metin og hvort gefinn hafi verið nægilegur tími til þjálfunar þess. Þá verði skoðað hvort svigrúm Strætó bs. við mat á þátttakendum í útboðinu hafi verið nægilegt.