Skipun fulltrúa í ráð og nefndir borgarinnar skoðaðar

Hildur Sverrisdóttir

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu á borgarstjórnarfundi í gær sem sneri að skipun fulltrúa í ráð og nefndir borgarinnar. Upp kom umræða um málið þegar að fimm fulltrúar meirihlutans sátu hjá við skipun varamanns Framsóknar og flugvallarvina í mannréttindaráð borgarinnar. Tillagan var samþykkt samhljóða.
Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfultrúi talaði fyrir tillögunni. Hún sagði að það væri lýðræðislega óeðlilegt að gera skipun annarra flokka í nefndir og ráð pólitíska eins og formið bjóði upp á með að bjóða upp á hjásetu. Flokkarnir eiga að hafa fullt lýðræðislegt umboð til að skipa hverja þá sem þeim hugnast og bera með því pólitíska ábyrgð á því vali. Hún sagði eftir að borgarstjórn samþykkti tillöguna: „Ég fagna því að tillagan var samþykkt samhljóða svo að það sé borgarstjórn öll sem er með því að samþykkja að það er óheppilegt að formið bjóði upp á svona pólitísk afskipti þegar það á ekki við og fer gegn lýðræðislegu umboði hvers flokks. Það er því mikilvægt að hugað verði að öðrum aðferðum svo að í framtíðinni mun aldrei leika svipaður vafi á því hvar pólitísk ábyrgð á fulltrúum flokkanna á með réttu að liggja.“

Tillaga Sjálfstæðisflokksins
Borgarstjórn samþykkir að fela forsætisnefnd að skoða hvaða leiðir eru tækar við skipun fulltrúa í ráð og nefndir borgarinnar aðrar en huglæg afstaða borgarfulltrúa til þeirra einstaklinga sem lagðir eru til á fundi borgarstjórnar.