Heimsóttu Götusmiðjuna

gotusmidjan

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi fór ásamt Herdísi Önnu Þorvaldsdóttur og Ólafi Kr. Guðmundssyni í heimsókn í Götusmiðjuna á mánudaginn sl. Mummi og Sigrún hjá Götusmiðjunni hittu þau og kynntu fyrir þeim starfsemina og ræddu við þau hvaða leiðir séu líklegastar til að skila árangri í þágu stuðnings og meðferðarúrræði fyrir unga vímuefnaneytendur.

Um Götusmiðjuna
Forsögu Götusmiðjunnar má rekja til ársins 1994 þegar þeir Björn Ragnarsson og Guðmundur Týr Þórarinsson(Mummi) stofnuðu Mótorsmiðjuna. Mótorsmiðjan var til húsa í höfðahverfinu í Reykjavík og var rekin af Reykjavíkurborg fyrir unglinga á aldrinum 13-16 ára. Hún var hugsuð sem sérhæfð félagsmiðstöð fyrir þá sem áttu af einhverjum ástæðum erfitt með að falla inn í viðurkennt mynstur samfélagsins. Þar gátu þeir fengið stuðning og leiðsögn út úr þeim óæskilega lífstíl sem þeir voru hraðri áleið út í.

Starfsemin í Mótorsmiðjunni leiddi margt í ljós varðandi stöðu og aðbúnað unglinga í Reykjavík sem ratað höfðu inn á gráa svæði samfélagsins. Oft var um að ræða unglinga sem ánetjast höfðu vímuefnum og höfðu leiðst út í afbrot, en einnig unglinga sem komu frá brotnum eða vanhæfum fjölskyldum.
Starf þeirra Björns og Mumma vakti eftirtekt og þótti til fyrirmyndar.