Hver á að axla ábyrgð á ferðaþjónustu fatlaðra?

FundurSjalfsbjargar
Borgarstjóri og aðrir fulltrúar meirihluta borgarstjórnar hafa síður en svo axlað ábyrgð á því sem farið hefur úrskeiðis í málefnum ferðaþjónustu fatlaðra á undanförnum mánuðum. Strax á fyrstu dögum ársins kom í ljós alvarlegur þjónustubrestur hjá ferðaþjónustu fatlaðra í kjölfar breytinga, sem gerðar voru á starfsemi hennar um áramótin. Rætt var ítarlega um málið á borgarstjórnarfundi 20. janúar og lögð fram tillaga Framsóknar og flugvallarvina um tafarlausa skipun tímabundins aðgerðahóps til að leysa það vandamál sem Strætó bs. stendur frammi fyrir varðandi ferðaþjónustu fatlaðra. Meirihlutinn vísaði tillögunni til nefndar. Skilaboð borgarstjóra og formanns borgarráðs á fundinum voru þau að unnið væri hörðum höndum að því að koma þjónustunni í lag og að þeir tækju beinan þátt í þeirri vinnu. Sú vinna væri þegar farin að skila árangri og mikilvægt væri að gefa henni meiri tíma. Tillagan væri því óþörf. Eftir því sem dagarnir liðu kom í ljós að ekki stóð steinn yfir steini í yfirlýsingum fulltrúa borgarstjórnarmeirihlutans í málinu 20. janúar því ekki varð lát á alvarlegum tilvikum. Eftir að mjög alvarlegt tilvik varð hinn 4. febrúar kom loks fram tillaga frá meirihlutanum um skipun sérstakrar neyðarstjórnar vegna málefna ferðaþjónustu fatlaðra. Enn koma upp óviðunandi mál á vettvangi ferðaþjónustu fatlaðra þrátt fyrir að nú sé næstum mánuður liðinn frá digurbarkalegum yfirlýsingum borgarstjóra og annarra fulltrúa meirihlutans um að ástand ferðaþjónustu fatlaðra væri að komast í lag. Ljóst er að fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans hafa því ekki með nokkrum hætti axlað pólitíska ábyrgð í málinu eins og þeim ber að gera.

 

Þetta sögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á fundi borgarstjórnar á þriðjudaginn. Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina tóku undir þetta. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru mættir á fund Sjálfsbjargar í gær (sjá mynd) þar sem notendur ferðaþjónustunnar voru mættir og gáfu borgarfulltrúum og öðrum gestum gagnlegar ábendingar.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi segir á Facebook í gærkvöldi að einhver þarf að taka pólitíska ábyrgð á þeim mikla þjónustubresti sem hefur orðið gagnvart fötluðu fólki. „Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og aðrir fulltrúar meirihlutans hafa ekki axlað pólitíska ábyrgð á hinum mikla þjónustubresti gagnvart fötluðu fólki, sem nú hefur varað í sjö vikur eins og þeim ber að gera. Frá því í byrjun janúar hafa yfirlýsingar streymt frá fulltrúum meirihlutans um að þeir væru komnir í málið og þess væri skammt að bíða að ferðaþjónusta fatlaðra kæmist í lag. Hvað eftir annað hefur komið í ljós að þessar yfirlýsingar meirihlutans eru innistæðulausar og eru þá nýjar jafnóðum gefnar út. Síðast kom upp alvarlegt mál í gær þrátt fyrir að nú sé næstum mánuður liðinn frá digurbarkalegum yfirlýsingum borgarstjóra og annarra fulltrúa meirihlutans á fundi borgarstjórnar um að ferðaþjónusta fatlaðra væri að komast í lag. Meðfylgjandi mynd tók ég á góðum fundi Sjálfsbjargar um málið í dag, þar sem margar gagnlegar ábendingar bárust,“ segir Kjartan.