Áróðursmáladeild Dags B.

Björn Jón Bragason

Björn Jón Bragason skrifar

Eitt af fyrstu verkum borgarstjórnarmeirihluta Jóns Gnarrs og Samfylkingarinnar var að stofna áróðursmáladeild í ráðhúsinu, en þar vinna nú alls fjórtán manns á kostnað reykvískra útsvarsgreiðenda.

Ráðríkir valdhafar hafa á öllum tímum lagt mikið upp úr því að hafa á að skipa öflugum áróðursmeisturum til að fegra ímynd sína og um leið beita brögðum til að afflytja boðskap pólitískra andstæðinga.

Áróðursmáladeild Dags B stýrir fyrrverandi ritstjóri Séð & heyrt, sem hefur ítrekað misnotað aðstöðu sína á samfélagsmiðlum og flutt pólitískt erindi vinstrimeirihlutans í nafni Reykjavíkurborgar, líkt og sagt var frá í fréttum í gær, en undirrituðum voru gerðar upp skoðanir og hann úthrópaður undir nafni Reykjavíkurborgar á samfélagsmiðli.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa margsinnis gagnrýnt fjáraustur í áróðursmáladeildina, sem oftar en ekki er nefnd „Propaganda Büro“, en Dagur B kallar deildina „faglega fjölmiðladeild“. Fréttir gærdagsins sýna og sanna að „faglega fjölmiðladeildin“ er réttnefnd áróðursmáladeild Dags B.

Á sama tíma og gatnakerfi borgarinnar er að hruni komið og öll almenn grunnþjónusta vanrækt er með engu móti réttlætanlegt að vinstrimeirihlutinn í borgarstjórn haldi úti sérstakri áróðursmáladeild. Við reykvískir útsvarsgreiðendur eigum heldur ekki að þurfa að þola það siðleysi að skattfé almennings sé með þessum hætti varið í pólitískan áróður.