Vilja úttektir á sameiningarferlum

Kjartan og Marta

Borgarstjórn samþykkti á þriðjudaginn einróma að vísa tillögu Sjálfstæðisflokksins um úttekt á sameiningarferli leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila til áframhaldandi meðferðar í skóla og frístundaráði. Samkvæmt tillögunni verður áhersla lögð á það í úttektinni að skoða hvernig staðið var að samskiptum og samráði við foreldra þeirra nemenda, sem umrætt sameiningarferli náði til og gerð viðhorfskönnun meðal þeirra. Í úttektinni verði einnig settar fram tillögur að úrbótum ef þörf krefur.

Umrætt sameiningarferli hófst árið 2011 og náði til ellefu grunnskóla og 24 leikskóla. Enn er glímt við afleiðingar breytinganna í umræddum skólum.

Á borgarstjórnarfundinum benti Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi á að í úttekt óháðs aðila á sameiningarferli skóla í Reykjavík, sem kynnt var í sl. mánuði. Var afar lítil áhersla lögð á að kanna hug foreldra til umræddra breytinga sem höfðu þó mikil áhrif á þá skóla sem sameinaðir voru. ,,Úttektaraðilar virðast fyrst og fremst hafa álitið það hlutverk sitt að kanna sjónarmið núverandi starfsmanna Reykjavíkurborgar, sem voru í þeim starfseiningum, sem sameinaðar voru á árunum 2010-2011. Ekki var leitað álits fyrrverandi starfsmanna, þ.e. þeirra sem hætt höfðu störfum hjá borginni í kjölfar sameiningarinnar þrátt fyrir að auðvelt hefði verið að ná til þess hóps. Þá er sérstaklega gagnrýnivert að í úttektarvinnunni virðist lítið sem ekkert hafa verið gert til þess að kanna hug foreldra barna í umræddum starfseiningum þrátt fyrir að fjöldi þeirra hefði á sínum tíma lagt á sig umtalsverða fyrirhöfn til að kynna sér breytingarnar og koma athugasemdum um þær á framfæri við skólayfirvöld í Reykjavík. Á meðan efnt var til viðhorfskönnunar meðal 658 starfsmanna Reykjavíkurborgar, sem enn vinna í þeim starfseiningum, sem breytingarnar náðu til, verður ekki séð að viðhorf foreldra til sameiningarferlisins hafi verið kannað, a.m.k. ekki með kerfisbundnum hætti. Þarna þarf að bæta úr og kalla eftir sjónarmiðum foreldrum foreldra til breytinganna og einnig fyrrverandi starfsmanna, sem hættu í kjölfar þeirra. Ef ekki verður úr þessu bætt, væri hægt að túlka þennan annmarka á úttektarvinnunni með þeim hætti að borgaryfirvöld séu þeirrar skoðunar að ekki þurfi að hlusta á þessa mikilvægu hópa þegar þetta stóra mál er gert upp,“ sagði Kjartan Magnússon í ræðu sinni á fundinum.

Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi tók einnig þátt í umræðunum og sagði: „Ef tillaga okkar sjálfstæðismanna verður samþykkt er það von mín að borgarstjórnarmeirihlutinn leggi við hlustir og dragi lærdóm af þeim úttektum sem gerðar eru og hætti að efna til óvinafagnaðar í hverju málinu á fætur öðru.“

Tillaga Sjálfstæðisflokksins

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að fela óháðum aðila að vinna úttekt um sameiningarferli leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila með tilliti til samþykkta Reykjavíkurborgar, stjórnsýslulaga og góðra stjórnarhátta. Áhersla verði lögð á að skoða hvernig staðið var að samskiptum og samráði við foreldra þeirra nemenda, sem umrætt sameiningarferli náði til og gerð viðhorfskönnun meðal þeirra. Í úttektinni verði settar fram tillögur að úrbótum ef þörf krefur.