Tillaga um bólusetningar felld

Hildur Sverrisdóttir

Til­laga borg­ar­full­trúa Sjálf­stæðis­flokks­ins, um að börn sem fengju inn­göngu í leik­skóla borgarinnar yrðu að vera bólu­sett nema lækn­is­fræðileg­ar ástæður hömluðu því, var felld á fundi borg­ar­stjórn­ar í dag með 9 at­kvæðum meiri­hlut­ans gegn 4 at­kvæðum borg­ar­full­trúa Sjálf­stæðis­flokks­ins. Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá. Samþykkt var hins veg­ar tillaga meirihlutans um að farið yrði í áhættumat vegna smit­sjúk­dóma.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að meirihlutinn hafi hafnað tillögu þeirra um að skóla- og frístundasviði verði falið að skoða hvernig best er hægt að útfæra aðgerðir til að tryggja að inngöngu í leikskóla Reykjavíkur fái eingöngu þau börn sem bólusett hafa verið við smitsjúkdómum, nema læknisfræðilegar ástæður hamli. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks harma jafnframt að meirihlutinn hafi ekki komið til móts við sjónarmið tillögunnar að neinu leyti með því að leggja ekki til að sviðinu verði falið að skoða hvaða aðgerðir væru tækar í því augnamiði. Í staðinn leggur meirihlutinn fram tillögu þess efnis að farið verði í áhættumat vegna smitsjúkdóma. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja þá tillögu sem verður þá vonandi jákvætt skref og innlegg í áframhaldandi umræðu innan borgarkerfisins. Áréttað skal þó að tillaga sjálfstæðismanna snerist ekki um að mæta aðgerðum vegna hættuástands, heldur er henni fyrst og fremst ætlað að hafa forvarnargildi ásamt því að vera hvetjandi og fordæmisgefandi aðgerð til að minnka áhættu á alvarlegum smitsjúkdómum til framtíðar.
Tillagan var svohljóðandi:
Borgarstjórn samþykkir að ekkert barn skuli fá inngöngu á leikskóla á vegum Reykjavíkurborgar nema það hafi fengið þær bólusetningar sem aldur þess segir til um, samkvæmt leiðbeiningum sóttvarnalæknis frá janúar 2013. Undantekningar frá þessu má gera ef læknisfræðilegar ástæður hamla því að börn séu bólusett. Leikskólar skulu jafnframt fylgjast með því að börn haldi áfram að fá þær bólusetningar sem leiðbeiningar sóttvarnalæknis kveða á um, fram til fjögurra ára aldurs. Skóla- og frístundasviði skal falið að útfæra þau skilyrði sem umsókn um leikskólavist þarf að uppfylla að þessu leyti og til hvaða ráðstafana þarf að grípa á leikskólum.
Ítarefni um tillöguna

Nánari upplýsingar í fjölmiðlum:

Mbl.is um tillögu Sjálfstæðisflokksins

Visir.is um tillögu Sjálfstæðisflokksins