Hraða þarf viðhald gatna

hringbraut

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þeir Halldór Halldórsson og Júlíus Vífill Ingvarsson lögðu til á borgarráðsfundi í gær að allri vinnu við undirbúning viðhalds gatna verði hraðað eins og mögulegt er. Útboðum verði hraðað þannig að hægt verði að hefja malbikun eigi síðar en í maí.

Tillagan var svohljóðandi:
Miðað við það fjármagn sem ákveðið hefur verið í malbikun gatna sumarið 2015 að meðtöldum 150 m.kr. sem bætt var við eða alls 690 m.kr. dugir það til viðhalds á 13,4 km. miðað við meðalverð ársins 2014 á hvern kílómetra. Þörfin fyrir malbikun gatna er að lágmarki 15 km. á ári og uppsöfnuð þörf verður orðin 42 km. hjá Reykjavíkurborg í lok ársins 2015 vegna lækkunar fjármagns til viðhaldsframkvæmda á undanförnum árum. Fyrirliggjandi fjárveitingar duga því engan veginn. Því reynist óhjákvæmilegt að auka fjármagn til gatnaviðhalds þar til búið er að vinna upp uppsafnaða viðhaldsþörf. Vísað er til fyrri tillagna borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um forgangsröðun fjármuna þar sem lagt er til að áætlað fjármagn í þrengingu Grensásvegar verði frekar notað til endurgerðar gatna.

Halldór og Júlíus Vífill