Sjálfstæðismenn vilja líf í garðana

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi

Á fundi borgarstjórnar í vikunni lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að nýta opnu grænin svæðin í borginni með nýjum og ferskum hætti. Kjarninn í þeirra hugmynd er að fá unga listamenn til liðs við borgina með því að beina listhópum sem starfa á vegum Hins hússins út á hin grænu opnu svæði og bjóða ungum listamönnum og listnemum að taka þátt í verkefninu. Einnig var lagt að auðvelda fólki að opna sölubása og bjóða ýmsan varning meðal annars matvöur og kaffi í tjöldum og vögnum.

„Þrátt fyrir að miðborgin er oft stöppuð af ferðamönnum á sumrin er enginn í görðunum sem þó tilheyra miðborgarsvæðinu eins og Hljómskálagarðinu og Hallargarðinum. Klambratún er rétt við mörk miðborgarinnar og kjörið að nýta það. Svo væri áhugavert að fara lengra og sjá hvort fólkið elti ekki bara skemmtilega viðburði. Þetta hefur verið reynt víða erlendis í vinsælum ferðamannaborgum og gefist vel. Reykjavík getur verið miklu fjölbreytilegri en hún er og óvæntir viðburðir í lystigörðum hennar munu örugglega vekja athygli og áhuga.“

Tillaga

Í þeim tilgangi að auka á litríki borgarinnar er lagt til að í sumar verði lögð áhersla á að glæða borgargarða nýju lífi. Verkefnið, sem gæti borið heitið „Listin í grasrótinni,“ byggir á frumlegum uppákomum og spennandi listviðburðum ungra listamanna. Í þessu augnamiði munu hópar ungs listafólks á vegum Hins Hússins nýta það mikla rými sem garðarnir bjóða upp á og það frelsi sem það gefur þeim. Götuleikhúsið verði þetta sumar ekki bara í miðborginni heldur einnig víðar inn á milli skógarbelta og út um grænar grundir borgargarðanna. Ungum hljómsveitum verði boðið að koma tónlist sinni á framfæri og þá sérstaklega þeim sem eru afrakstur styrkveitinga borgarinnar. Kannaður verði áhugi tónlistarskóla og annarra listaskóla á að taka þátt í þessu verkefni. Til að auka á fjölbreytni verði veitt endurgjaldslaust leyfi fyrir sölu á varningi og matvælum undir berum himni, undir sólhlífum, í söluvögnum eða sölutjöldum. Við þróun verkefnisins verði nýtt sú reynsla sem kom fékkst af verkefninu Torg í biðstöðu þar sem frumleiki og hugmyndaauðgi var í fyrirrúmi og heppnaðist vel. Höfuðborgarstofu verði falið að sjá um kynningu á þeim verkefnum sem sett verða upp og þá einkum á þeim viðburðum sem vakið geta áhuga erlendra ferðamanna. Sérstaklega verði horft til garða eins og Hljómskálagarðsins, Klambratúns, Laugadals og Elliðaárdals.  Einnig mætti skoða staði sem eru fjær borgarbyggðinni eins og Nauthólsvík.

Greinargerð                                                                                                                                                

Borgargarða Reykjavíkur mætti nýta mun betur er gert er. Að gróðursetja tré og slá gras er ekki nægilegt til að glæða áhuga borgarbúa á því að fjölmenna í garðana. Göngu- og hjólastígar hafa að stóru leyti tekið yfir það hlutverk sem görðunum var einu sinni ætlað til útivistar og hreyfingar og því kominn tími á að endurhugsa með hvaða hætti við viljum sjá hin stóru grænu svæði fá líf að nýju. Garðana þarf að gera áhugaverðari og til þess eru margar leiðir. Ein af þeim sú sem nú er lögð til hér þar sem sköpunarkraftar ungs fólks eru nýttir til þess að kalla borgarbúa og ferðamenn inn í garðana og hugsanlega til virkrar þátttöku í því sem þar verður að gerast.

Margar borgir hafa markvisst dreift álagi vegna ferðamanna með því að nýta gamla listigarða á nýjan hátt. Við það eykst fjölbreytileiki borgarlífsins og upplifun ferðamannsins verður meiri og ekki einvörðungu bundin við gönguferðir um hina sögulegu miðborg. Reykjavík býr svo vel að eiga slíka listigarða í göngufjarlægð frá miðborginni og óhætt að fullyrða að í nýtingu þeirra liggi margvísleg ónýtt tækifæri til framtíðar.