Íbúafundur einungis til sýnis?

Halldór og Júlíus Vífill

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar lögðu það til í nóvember á síðasta ári að efnt yrði til víðtæks samráðs meðal íbúa og hagsmunaaðila um þrengingu Grensásvegar.  Meirihluti borgarstjórnar varð svo við því á fimmtudaginn í síðustu viku að halda opinn íbúafund enda málið mjög umdeilt. Áætlaður kostnaður framkvæmdarinnar eru 160 milljónir. Athygli hefur vakið að þegar dagskrá umhverfis- og skipulagsráðs var lögð fram á mánudaginn var þrenging Grensásvegar þar á dagskrá þrátt fyrir að á fundinum hafi fundargestir verið fullvissaðir um að málið væri enn í vinnslu og fólk hvatt til að koma með athugasemdir og hugmyndir. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að af þessu megi ráð að fundurinn hafi einungis verið til sýnis enda var nýtt skipulag um Grensásveginn samþykkt í borgarráði í dag.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þeir Halldór Halldórsson og Júlíus Vífill Ingvarsson bókuðu um málið í borgarráði á fimmtudaginn.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks vekja athygli á því að á fundi Umhverfis og skipulagsráðs í gær var samþykkt að þrengja Grensásveg. Við afgreiðslu málsins greiddu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins atkvæði gegn málinu og bókuðu um sína afstöðu. Á íbúafundi sem haldinn var í Breiðgerðisskóla fimmtudaginn 12. þ.m. var fundagestum sagt að ekki væri enn ákveðið hvort farið yrði út í að þrengja Grensásveg og voru fundargestir hvattir til að hafa samband og senda inn tölvupósta. Af því mátti ráða að enn væri tími til stefnu og umræðu ekki lokið. Nú liggur sú staðreynd fyrir að fulltrúar meirihlutans hafa notað fyrsta mögulega tækifæri til þess að ákveða að fara í þessa óþarfa framkvæmd í andstöðu við fjölda borgarbúa. Málið var sett á dagskrá ráðsins mánudaginn 16. þ.m. eða einum virkum degi eftir íbúafundinn.  Af því verður einungis ráðið að aldrei hafi staðið til að nýta fundinn til annars en til sýnis.  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks gagnrýna þessi vinnubrögð harðlega en vísa að öðru leyti til ítarlegrar bókunar fulltrúa flokksins í ráðinu.