Er meirihlutinn að hafna aðkomu foreldra að ráðningu skóla- og leikskólastjóra?

Halldór og Júlíus Vífill

Á borgarráðsfundi þann 7. apríl síðastliðinn lögðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þeir Halldór Halldórsson og Júlíus Vífill Ingvarsson fram tillögu þar sem foreldrafélagi og skólaráði/foreldraráði yrði gefinn kostur á virku samráði við ráðningu skóla- og leikskólastjóra. Einnig að gefa viðkomandi foreldrafélagi og skólaráði/foreldraráði kost á að hitta þá umsækjendur, sem metnir hafa hæfastir og fá að kynnast þeirra sýn á starfinu.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sf, Bf, Vg og Pírata gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sat hjá við atkvæðisgreiðslu.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:

Við hörmum að fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata hafi fellt tillögu Sjálfstæðisflokksins um virkt samráð við foreldrafélög vegna ráðningar skólastjóra. Það fyrirkomulag, sem hér er lagt til hefur gefist vel víða erlendis og er þar haft til fyrirmyndar um framsækið skólastarf og gott foreldrasamstarf. Í stað þess að taka upp samráð við foreldra varðandi ráðningu skólastjóra kýs meirihlutinn nú að auka á miðstýringu með því að fækka þeim, sem koma að slíkum ráðningum, m.a. með því að draga úr ábyrgð kjörinna fulltrúa á þessum mikilvægu og afdrifaríku ákvörðunum og fela embættismannavaldinu þær alfarið. Tæpt ár er síðan nýr vinstri meirihluti í borgarstjórn gaf loforð um að kraftar allra Reykvíkinga yrðu látnir nýtast við stefnumörkun og ákvarðanatöku í borgarkerfinu og að áhersla yrði lögð á gagnsæi, íbúalýðræði og upplýsingamiðlun. Ljóst er að þessi loforð meirihlutans eru innantóm og merkingarlaus.

Tillagan er svohljóðandi:

Lagt er til að eftirfarandi málsgrein bætist við 10. gr. samþykktar um skóla- og frístundaráð: Við ráðningu í stöðu skólastjóra og leikskólastjóra skal skóla- og frístundasvið gefa foreldrafélagi og skólaráði/foreldraráði viðkomandi skóla kost á virku samráði um málið. Þar sem ráðning skólastjóra eða leikskólastjóra stendur fyrir dyrum, skal gefa stjórn viðkomandi foreldrafélags og skólaráði/foreldraráði kost á að hitta að máli þá umsækjendur, sem metnir hafa verið hæfastir, til að kynnast sýn þeirra á starfið. Heimilt er að hafa slíkan fund opinn öllum foreldrum viðkomandi skóla. Að undangengnu slíku samráði er þessum aðilum, þ.e. stjórn foreldrafélags og skólaráði/foreldraráði, heimilt að skila umsögn til skóla- og frístundasviðs með áliti um hvaða umsækjandi sé hæfastur til að gegna viðkomandi starfi. Umræddum aðilum er einnig heimilt að að skila umsögn til sviðsins án þess að mælt sé með ákveðnum umsækjanda en með ábendingum um hvaða atriði sé æskilegt að leggja áherslu á þegar ráðið verður í stöðuna með tilliti til aðstæðna í umræddum skóla og vilja foreldra.