Tap á aðalsjóði Reykjavíkurborgar jafn hátt og heildartekjur Mosfellsbæjar

Borgarstjórn allir

Í dag 28. apríl var ársreikningur Reykjavíkurborgar lagður fram til fyrri umræðu í borgarstjórn.

Mikið tap er á A-hluta Reykjavíkurborgar eða 2,8 milljarðar króna og það þrátt fyrir að rekstrartekjur hafi aukist um 2,3 milljarða króna á milli áranna 2013 og 2014. En tap aðalsjóðs er 7,1 milljarður króna. Er þetta tap bætt upp með jákvæðri afkomu Eignasjóðs og Bílastæðasjóðs þannig að tapið verður 2,8 milljarðar.

Halldór Halldórsson sagði í ræðu sinni í dag að um sláandi tölur væri að ræða og eitthvað mikið væri að í rekstri Reykjavíkurborgar.

En ef rekstur A- hluta Reykjavíkurborgar er skoðaður, má sjá að í tíð vinstri meirihluta árin 2002-2006 hefur alltaf verið taprekstur. Árin 2007-2010 er Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta og þá er jákvæð afkoma öll árin. Er þetta þrátt fyrir að útsvar sé í hámarki í dag.

Bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er eftirfarandi:

Ársreikningur ársins 2014 sýnir mikið tap á a-hluta Reykjavíkurborgar eða sem nemur 2,8 milljörðum króna þrátt fyrir að rekstrartekjur a-hluta vaxi um 2,3 milljarða króna milli 2013 og 2014. Tap aðalsjóðs er 7,1 milljarðar króna og er bætt upp með jákvæðri afkomu Eignasjóðs og Bílastæðasjóðs þannig að niðurstaðan verður 2,8 milljarðar króna í tap. Í skýrslu fjármálaskrifstofu borgarinnar segir um þennan taprekstur að mikilvægt sé að bregðast við þessum aðstæðum. Þar segir einnig um veltufé frá rekstri sem er einungis 5% að lágmarkið vegna skuldastöðu a-hluta borgarinnar sé 9%. Í ljósi þess hversu mikils hlutleysis er almennt gætt í orðavali fjármálaskrifstofu verður að líta svo á að þarna sé um þung viðvörunarorð til meirihlutans að ræða. Þegar rekstur a-hluta er skoðaður frá árinu 2002 má sjá að í tíð vinstri meirihluta 2002-2006 er taprekstur öll árin. Árin 2007-2010 er Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta og þá er jákvæð afkoma öll árin. Vinstri meirihluti tekur svo við vorið 2010 og eftir það er aftur taprekstur á a-hluta að frátöldu árinu 2013 sem verður að segjast að sé undantekningin sem sannar þá reglu að í tíð vinstri meirihluta við stjórn Reykjavíkurborgar er taprekstur á a-hluta. Þannig er það þrátt fyrir að útsvari sé haldið í hæstu löglegu hæðum.

rekstrarnidurstada_adalsjods_rvkborg