Afturköllun framkvæmdarleyfis

Halldór og Júlíus Vífill

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram tillögu um að framkvæmdarleyfi Valsmanna við Hlíðarenda verði dregið til baka tímabundið eða þar til þeir fyrirvarar sem innanríkisráðuneytið tilgreinir verði uppfylltir. En samkvæmt þeim þarf Samgöngustofa að ljúka umfjöllun sinni um áhrif lokunar á flugbraut 06/24 og að “Rögnunefndin” hafi lokið starfi sínu.

Tillagan er eftirfarandi:

Innanríkisráðuneytið hefur með bréfi dagsettu 17. apríl sl. skorað á Reykjavíkurborg að virða gildandi skipulagsreglur og stjórnsýslumeðferð. Bent er á að uppbygging á Valssvæðinu sé óheimil með vísan til laga um loftferðir. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að framkvæmdaleyfi á svæði Valsmanna við Hlíðarenda verði dregið til baka tímabundið eða þar til þeir fyrirvarar sem ráðuneytið tilgreinir hafa verið uppfylltir en þeir eru að Samgöngustofa hafi lokið umfjöllun sinni um möguleg áhrif lokunar flugbrautar 06/24 og að verkefnastjórn um könnun á flugvallarkostum, svokölluð Rögnunefnd, hefur lokið störfum. Jafnframt er því beint til Samgöngustofu og Rögnunefndar að flýta sínum störfum. R14010193