Viðvörunarljósin loga hjá vinstri meirihlutanum í borginni

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti ársreikning borgarinnar fyrir árið 2014 við síðari umræðu á fundi sínum 12. maí. Reikningurinn sýnir mikið tap á A-hluta Reykjavíkurborgar þrátt fyrir að rekstrartekjur A-hluta vaxi um 2,3 milljarða króna milli 2013 og 2014. Útgjaldaaukning er 9,3 milljarðar á milli sömu ára þannig að tap aðalsjóðs er 7,1 milljarður króna og er bætt upp með jákvæðri afkomu Eignasjóðs og Bílastæðasjóðs þannig að niðurstaðan verður 2,8 milljarðar króna í tap. Borgin tapaði því tæpum átta milljónum króna hvern dag ársins 2014 eða sem nemur andvirði tveggja góðra fólksbíla daglega.

Fjármálaskrifstofan varar við
Í skýrslu Fjármálaskrifstofu borgarinnar segir um þennan taprekstur að mikilvægt sé að bregðast við þessum aðstæðum. Þar segir einnig um veltufé frá rekstri sem er einungis 5% að lágmarkið vegna skuldastöðu A-hluta borgarinnar sé 9%. Í ljósi þess hversu mikils hlutleysis er almennt gætt í orðavali Fjármálaskrifstofu verður að líta svo á að þarna sé um þung viðvörunarorð til meirihlutans að ræða. Á mælaborði vinstrimeirihlutans í Reykjavík loga því öll viðvörunarljós en áhyggjurnar af því eru ekki meiri en svo að þessi meirihluti afgreiddi fjárhagsáætlun ársins 2015 með 5 milljarða kr. halla á aðalsjóði borgarinnar.

Vinstri taprekstur en hægri jákvæð afkoma
Þegar rekstur A-hluta er skoðaður frá 2002 til 2014 á meðfylgjandi mynd má sjá að í tíð vinstri meirihluta 2002-2006 er taprekstur öll árin. Árin 2007-2010 er Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta og þá er jákvæð afkoma öll árin. Vinstri meirihluti tekur svo við vorið 2010 og eftir það er aftur taprekstur á A-hluta að frátöldu árinu 2013 sem verður að segjast að sé undantekningin sem sannar þá reglu að í tíð vinstri meirihluta við stjórn Reykjavíkurborgar er taprekstur á A-hluta. Skýringin á jákvæðri afkomu 2013 er reyndar einföld. Gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga er allt í einu 159 milljónir kr. það ár þrátt fyrir að yfirleitt sé gjaldfærslan 2-3 milljarðar á ári.

Útsvarið í hæstu hæðum
Þannig er rekstur Reykjavíkurborgar þrátt fyrir að útsvari sé haldið í hæstu löglegu hæðum sem þýðir ein auka vika fyrir borgarbúa í vinnu miðað við sveitarfélag sem er með lágmarksútsvar.
Borgarstjórn samþykkti að vísa tillögu okkar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins til borgarráðs. Tillagan gengur út á að nú þegar verði hafin rekstrarhagræðing A-hluta borgarinnar með það að markmiði að rekstur verði í jafnvægi þannig að skatttekjur dugi fyrir rekstrarútgjöldum. Í framhaldi af hagræðingaraðgerðum verði hafist handa við að lækka útsvar í áföngum. Fyrsti áfangi verði 0,25% lækkun útsvars. Langstærsta sveitarfélag landsins á ekki að þurfa að vera með útsvarið í hæsta leyfilega hámarki en þannig verður það ef rekstrarhagræðing næst ekki.