Meirihluti borgarstjórnar hafnar því að endurskoða skipulag lóðar Landsbankans við Austurhöfn

lbank-hörpureitur

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs á miðvikudaginn sl. var tillögu Sjálfstæðisflokksins um að endurskoða skipulag lóðar Landsbankans við Austurhöfn vísað frá.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins þann 12. ágúst sl.

Við fögnum því að stjórnendur Landsbankans hafi ákveðið að staldra við og endurskoða áform um uppbyggingu 16.000 fermetra höfuðstöðva á Hörpureitnum. Austurbakki er lykilsvæði í þróun miðborgarinnar og því mikilvægt að hugsa vandlega öll þau skref sem þar eru stigin. Sem betur fer hafa grunnhugmyndir að deiliskipulagi svæðisins þroskast frá því að það var unnið árið 2005 og ýmsar breytingar verið gerðar á skipulaginu. Upphaflega var t.d. skoðað að nýta umrædda lóð Landsbankans fyrir nýbyggingar Listaháskólans og náttúruvísindasafn. Þær skipulagsbreytingar sem gerðar hafa verið hafa aðallega miðast við samgöngumannvirki eða einstakar lóðir án þess að því hafi fylgt heildarmat á áhrifum breytinganna á miðborgarsvæðið.

Lagt er til að það svigrúm sem skapast hefur með ákvörðun stjórnenda bankans verði nýtt til að vinna með Landsbankanum að því að finna viðunandi framtíðarstaðsetningu í borginni fyrir höfuðstöðvar bankans.

Skipulag lóðar bankans á Austurbakka verði endurskoðað. Efnt verði til samkeppni um nýtingu lóðar Landsbankans og leitað eftir hugmyndum frá fagfólki og almenningi um það hvernig lóðin muni best nýtast í heildarsamhengi miðborgarinnar. “

Tillögunni vísað frá

Umrædd lóð er í samþykktu skipulagi og er á forræði Landsbankans. Ríki og borg seldu lóðina til bankans eftir útboð árið 2013. Skipulagsáætlanir hafa gert ráð fyrir að byggt verði á lóðinni allt frá því að tónlistarhúsi þjóðarinnar, Hörpu var valinn staður á svæðinu. Uppbygging á lóðinni er mikilvæg, svo þarna verði ekki áfram hola, stórt sár í borgarmyndinni. Þá er líka æskilegt að þarna verði um fjölmennan vinnustað að ræða, sem verður bakland þjónustu og verslunar í miðborginni. Afar mikilvægt er að jarðhæðir nýbyggingarinnar verði opin og lifandi almenningsrými, eins og skipulagið gerir ráð fyrir. Best færi á því að sem allra stærsti hluti jarðahæðanna yrði þannig.

Mælist umhverfis- og skipulagsráð til að því verði beint til lóðahafa en vísar fyrirliggjandi tillögu að öðru leyti frá.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokkins bókuðu

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að unnið verði með Landsbankanum að því að finna aðra framtíðarstaðsetningu í borginni fyrir höfuðstöðvar bankans og að skipulag lóðarinnar við Austurbakka verði endurskoðað. Þá er lagt til að efnt verði til samkeppni um nýtingu lóðarinnar á Hörpureitnum og leitað eftir hugmyndum frá fagfólki og almenningi um það hvernig lóðin muni best nýtast í heildarsamhengi miðborgarinnar.

Stjórnendur Landsbankans hafa ákveðið að staldra við og gera hlé á fyrri byggingaráformum sínum og þar af leiðandi hefur skapast svigrúm til samtals við lóðarhafa um nýtingu lóðarinnar.

Afstaða fulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna vekur furðu. Tillaga um að fara betur yfir skipulag á einni mikilvægustu lóð miðborgarinnar er hafnað á þeim forsendum að það þoli ekki bið að fylla holu. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægara að hugsa til framtíðar og vanda alla skipulagsvinnu. Sú afstaða meirihlutans að allt sem í eina tíð var ákveðið í borgarskipulagi skuli standa óhaggað lýsir hvorki metnaði né hugmyndauðgi hans.

Frávísunartillaga meirihlutans er ódýr leið til að losna undan því að taka afstöðu til tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi