Leggjast gegn því að borgin sniðgangi ísraelskar vörur

halldor_borgarstjorn0302

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðust gegn tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur um að sniðganga ísraelskar vörur í Reykjavíkurborg. Tillagan var samþykkt af meirihluta borgarstjórnar.

Bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka eindregna afstöðu gegn mannréttindabrotum hvar sem þau eru framin í heiminum. Fulltrúarnir skilja og taka undir samúð Bjarkar Vilhelmsdóttur með hörmulegum aðstæðum og erfiðleikum fólks í Palestínu. Ekki er þó hægt að taka undir þá tillögu sem fyrir liggur enda ekki sannfærandi rök um að inngrip af þessu tagi skili miklum árangri. Innkaupabann mun engin áhrif hafa í Palestínu. Allra síst mun innkaupabann á vörur frá Ísrael í Reykjavíkurborg hafa áhrif á stöðu íbúa Palestínu til hins betra. Reynslan sýnir að slíkar aðgerðir loka á samskipti og útiloka farsælar lausnir.

Lengi hefur verið sú hefð í borgarstjórn að fráfarandi borgarfulltrúi flytji kveðjutillögu á sínum síðasta fundi. Hefur tillagan þá verið borin undir alla borgarfulltrúa og leitað samkomulags. Því var ekki að heilsa í þetta sinn og er það miður að þannig hafi verið staðið að tillögunni. Þess er saknað að tillaga borgarfulltrúans tengist ekki velferðarmálum, þar sem mikilla umbóta er þörf, eins og borgarfulltrúinn hefur tjáð sig um nýlega. Björk Vilhelmsdóttir á að baki langa setu í borgarstjórn og býr yfir mikilli þekkingu á sviði velferðarmála en þeim hefur hún stýrt í mörg ár sem formaður velferðarráðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka góða samfylgd og óska henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.