Leggja til að Stjórnkerfis- og lýðræðisráð verði lagt niður

Hildur Sverrisdóttir

Í dag 19. október lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks í Stjórnkerfis- og lýðræðisráði aftur fram tillögu frá 5. október um að ráðið yrði lagt niður. En tillagan var felld með fjórum atkvæðum Bjartrar framtíðar, Pírata og Samfylkingar gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðismanna.

Sjálfstæðismenn lögðu svo fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnkerfis- og lýðræðisráði harma að ekki hafi verið samþykkt tillaga þeirra um að leggja ráðið niður. Ekki er efast um að góður hugur fylgir öllum þeim ráðum og nefndum sem ráðist sé í að stofna og halda úti. Hins vegar verður að meta árangur þeirra miðað við kostnaðinn þar sem ekki er hægt að halda úti stærra borgarkerfi en borgarsjóður getur staðið undir. Nú hefur stjórnskipunar- og lýðræðisráð starfað í rúmlega ár. Því miður er það svo að raunverulegur árangur stjórnskipunar- og lýðræðisráðs nær ekki að réttlæta kostnað við nefndarstörfin sem er stærsti kostnaðarliðurinn og hleypur á milljónum króna, sem borgarsjóður á ekki til. Á þeim tíma hafa þó verið settar ágætis stefnur og vinnureglur í kringum ýmis konar upplýsinga- og lýðræðismál. Þær stefnur eru því komnar inn í borgarkerfið og allir sem starfa í borgarkerfinu geta og eiga að taka mið af. Það er ekki vond arfleifð inn í borgarkerfið í átt að auknu gagnsæi og aðgangi borgarbúa. Hins vegar er engin þörf á að halda úti sérstöku ráði til að hafa eftirlit með því umfram aðra til þess bærra aðila innan borgarkerfisins sem geta haldið þeim markmiðum á lofti í þeim verkefnum sem ráðið hefur nú á sinni könnu en gæti auðveldlega verið sinnt af alúð annars staðar í borgarkerfinu eins og á við.