Bókun vegna Reykjavíkurflugvallar

Halldór og Júlíus Vífill

Á borgarráðssfundi í dag var til umræðu bréf innanríkisráðherra til Reykjavíkurborgar vegna flugvallarins. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu eftirfarandi:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagst gegn því að lóðum yrði úthlutað og framkvæmdir almennt heimilaðar vegna þess að NA/SV flugbrautin er til staðar og því óábyrgt af Reykjavíkurborg að taka ákvarðanir sem skapa kostnað hjá þriðja aðila. Slíkur kostnaður getur fallið á skattgreiðendur í Reykjavíkurborg ef illa fer.

Innanríkisráðherra áréttar í bréfi sínu dags. 3. nóv. sl. það sem einnig kom fram í bréfi frá ráðherra 17. apríl sl. að Reykjavíkurborg sé það fullkunnugt að leyfi fyrir framkvæmdum og öðrum ráðstöfunum á Hlíðarendasvæðinu séu undanfari byggingaframkvæmda sem ekki geti orðið af að óbreyttum skipulagsreglum fyrir flugvöllinn. Ráðherra áréttar að útgáfa byggingarleyfa á Hlíðarendasvæðinu sé alfarið á ábyrgð og áhættu Reykjavíkurborgar. Um leið ítrekar ráðherra mikilvægi þess að ríki og Reykjavíkurborg vinni áfram að samkomulagi um framtíð Reykjavíkurflugvallar í samráði við þá sem hagsmuni eiga að gæta.

Þetta verður ekki skýrara að mati borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem ítreka fyrri afstöðu sína um að meirihlutinn í Reykjavíkurborg láti af því að gefa út leyfi og gera aðrar ráðstafanir á Hlíðarendasvæðinu því það varðar öryggismál í flugi og tengingu höfuðborgarinnar við landið í heild og það skapar mikla fjárhagslega áhættu fyrir Reykvíkinga að vinna með þeim hætti sem meirihlutinn gerir. Nær er af hálfu meirihlutans að vinna að lausn varðandi framtíð flugvallarins í samstarfi við innanríkisráðherra.