Vilja bjóða út sorphirðu

sorpid

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja gera úttekt á hagkvæmni þess að bjóða út sorphirðu í Reykjavík. Þetta er ein tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins til aðgerða í rekstri borgarinnar  en seinni umræða fjárhagsáætlunar borgarinnar fer fram á borgarstjórnarfundi í dag.

„Framundan eru miklar aðgerðir sem munu reyna á hvort meirihluti borgarstjórnar, þessir fjórir flokkar, ráða við að snúa rekstrinum við með okkar hjálp því vissulega þarf meirihlutinn hjálp okkar til að bæta reksturinn. Það er löngu orðið ljóst. Það versta er að meirihlutanum hefur ekki líkað neitt sérstaklega við tillögur okkar til þessa um bættan rekstur því þær fara sennilega ekki nógu vel saman við hugmyndafræðina sem kynnt er í samstarfssáttmála meirihlutaflokkanna um að borgarrekstur en ekki einkarekstur eigi að vera meginreglan. Þegar slíkt er meginstefna eru útboð og tillögur um að láta reyna á útboð í ákveðnum málaflokkum eins og t.d. sorphirðu fyrirfram dæmt úr leik af hálfu meirihlutans,“ sagði Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í ræðu sinni í dag.

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Borgarstjórn samþykkir að gerð verði úttekt á hagkvæmni þess að bjóða út sorphirðu í Reykjavík. Í þeirri úttekt skal miðað við að slík breyting á fyrirkomulagi verði gerð í áföngum, t.d. með því að sorphirða verði í upphafi boðin út í 1-2 hverfum og reynslan metin áður en lengra verður haldið. Einnig skal tryggt að núverandi starfsmenn sorphirðunnar hjá Reykjavíkurborg haldi störfum sínum og réttindum með þeim hætti að vænt hagræðing verði gerð í samræmi við starfsmannaveltu viðkomandi deildar eða með því að þeim bjóðist annað sambærilegt starf hjá borginni.